Konur lesa upp #metoo-sögur í dag

Konur í sviðslistum og kvikmyndagerð, stjórnmálum, fjölmiðlum, íþróttum, tónlist, tækni- …
Konur í sviðslistum og kvikmyndagerð, stjórnmálum, fjölmiðlum, íþróttum, tónlist, tækni- og hugbúnaðariðnaði, verkalýðshreyfingunni, vísindum og réttargæslu munu lesa upp #metoo-sögur í Borgarleikhúsinu klukkan 16 í dag. Ljósmynd/verilymag.com

Konur úr fjölbreyttum starfsstéttum munu lesa upp frásagnir sem litið hafa dagsins ljós í #metoo baráttunni hér á landi klukkan 16 í dag í Borgarleikhúsinu. Samhliða upplestrinum í Borgarleikhúsinu verða svipaðir viðburðir í Samkomuhúsinu á Akureyri og í Herðubreið á Seyðisfirði.

#metoo baráttan hefur farið sem bylgja um heim allan í kjölfar þess að leikkonur í Bandaríkjunum stigu fram og sökuðu framleiðandann Harvey Weinstein um kynferðislega áreitni og ofbeldi.

Í tilkynningu frá skipuleggjendum viðburðarins segir að óviðeigandi hegðun, áreitni og ofbeldi virðist ekki láta neina starfsstétt ósnortna. Á viðburðinum í dag verður því lögð áhersla á frásagnir frá kvennum í fjölbreyttum starfsstéttum.

Meðal kvenna sem munu lesa upp frásagnir eru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Steinunn Valdís Óskarsdóttir fyrrum borgarstjóri, leikkonan Kristbjörg Kjeld, tónlistarkonan Hildur, Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari og Hrafnhildur Lúthersdóttir ólympíufari. Viðburðinum verður leikstýrt af Silju Hauksdóttur og Söru Martí Guðmundsdóttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert