„Þarna er ég að skjóta Rússa“

„Þarna er ég að skjóta Rússa, þetta voru stríðsárin,“ segir Þórarinn „Póri“ Jónasson um teikningu sem prýðir forsíðu bókarinnar: Póri skoðar heiminn sem Jónas Sveinsson faðir hans skrifaði um miðja síðustu öld. Handritið fannst fyrir um 20 árum og er nú orðið að bók. 

Sagan er skrifuð út frá sjónarhorni Póra í ferðalagi með fjölskyldu sinni um Evrópu árið 1950. „Rússarnir“ sem Póri hafði skotið á voru landamæraverðir á landamærum Austur-Þýskalands og skotið var úr knallettubyssu en hann var þó nógu gamall til að vita hvar hollustan lá á tímum kalda stríðsins og er atvikið rakið í sögunni. Jónas var þá vel þekktur læknir og markmið ferðarinnar var að kynnast nýjungum í læknavísindum.

Handritið var fallega myndskreytt og í samtali við mbl.is sem sjá má í myndskeiðinu segir Póri að minningarnar hafi margar hverjar rifjast upp fyrir honum þegar hann las handritið og skoðaði myndirnar. Ekki er vitað hver höfundur myndanna var og Póri er vonlítill um að það komi nokkurn tíma í ljós.

Jónas Sveinsson var merkilegur læknir og hafði um skeið mikinn áhuga á því að „yngja“ fólk upp. Sagan af því þegar hann græddi eista úr ungum bónda í Húnavatnssýslu í norskan auðmann á áttræðisaldri er vel þekkt. Sagt er frá henni í ævisögu Jónasar: Lífið er dásamlegt en einnig var hún rakin í Lemúrnum fyrir tveimur árum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert