Venstre til í stjórnarmyndunarviðræður

Norska Stórþingið.
Norska Stórþingið. Ljósmynd/Norden.org

Leiðtogi frjálslynda flokksins Venstre í Noregi, Trine Skei Grande, tilkynnti í gærkvöld að flokkur henar væri reiðubúinn að hefja stjórnarmyndunarviðræður við Hægriflokkinn og Framfaraflokkinn. Þingkosningar fóru fram í Noregi 11. september.

Fundað hefur verið í flokksstofnunum Venstre um helgina og var helsta umræðuefnið möguleg þátttaka í stjórnarmyndunarviðræðum eða ekki. Hinn möguleikinn sem rætt var um var að styðja minnihlutastjórn án þess að eiga beina aðila að henni.

Grande segir að stefnt sé að því að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður í upphafi nýs árs. Viðræðurnar yrðu vafalaust erfiðar en látið yrði á það reyna. Hét hún því ennfremur að stefnumálum Venstre yrði haldið á lofti í viðræðunum.

Sagðist Grande hafa góðan stuðning innan Venstre til þess að fara í viðræðurnar en að málið væri engu að síður umdeilt í baklandinu. Bað hún flokksmenn að sýna biðlund og sjá hvað kæmi út úr viðræðunum áður en lagst yrði gegn þeim.

Grande sagði ennfremur að Venstre vildi sjá stjórnarsáttmála sem legði meiri áherslu á umhverfismál og ennfremur meiri útgjöld til velferðarmála. Erna Solberg, forsætisráðherra og leiðtogi Hægriflokksins, hefur fagnað ákvörðun Venstre.

Síðasta ríkisstjórn Noregs, sem situr enn sem starfsstjórn, var mynduð af Hægriflokknum og Framfaraflokknum með stuðningi Venstre og Kristlega þjóðarflokksins. Stjórn flokkanna þriggja myndi hafa 86 þingmenn og eins manns meirihluta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert