Fljúga yfir sigkatli Öræfajökuls

Frá Öræfajökli.
Frá Öræfajökli. mbl.is/RAX

Flogið verður yfir Öræfajökul í dag til að mæla yfirborð hans og skoða sigketilinn betur.

Að sögn Einars Hjörleifssonar, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, er flugvélin farin á loft og um borð er maður á vegum stofnunarinnar með myndavél. „Það virðast vera ágætis skilyrði yfir jöklinum,” segir hann.

Niðurstöður eru væntanlegar síðar í dag.

Gulur litakóði er enn í gildi vegna flugs yfir jökulinn, sem þýðir að eldstöðin sýnir merki um virkni umfram venjulegt ástand.

Einar segir að litakóðinn sé fyrst og fremst hugsaður fyrir flugrekstraraðila í samræmi við tilmæli frá Alþjóðaflugmálastofnuninni, ICAO.

Vöktunin í kringum Öræfajökul er orðin mun betri en hún var. Vatnamælar hafa verið settir upp í Virkisá, Skaftafellsá, Kotá og Kvíá, auk þess sem komnar eru þrjár GPS-stöðvar umhverfis jökulinn. Vefmyndavélar hafa einnig verið settar upp á svæðinu, meðal annars við hjá einhverjum af vatnamælunum.

Að sögn Einars hefur jarðskjálftamælum einnig verið bætt við til að mæla virkni jökulsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert