Hægir á sigi í katlinum

Sigketillinn hefur dýpkað um 2-3 metra á hálfum mánuði.
Sigketillinn hefur dýpkað um 2-3 metra á hálfum mánuði. mbl.is/RAX

Úrvinnsla mælinga úr flugferð vísindamanna yfir Öræfajökul í gær benda til þess að mjög hafi hægt á sigi í katlinum. Sigketillinn í öskju eldstöðvarinnar hefur dýpkað um 2-3 metra frá síðasta flugi sem var fyrir nærri tveimur vikum.

„Það er allt heldur hægara,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði. Hann segir að annaðhvort sé að draga úr jarðhita eða þá að jarðhitabræðslan hafi hafist áður en sigketillinn sást og hann hafi verið að safna vatni og skila því frá sér í lengri tíma. „Hvort heldur sem er eru það heldur góðar fréttir að ekki sé meira í gangi en þetta,“ segir Magnús Tumi.

Hann segir ekki hægt að segja af eða á um langtímahættu á eldgosi. Túlkanir vísindamanna eru óbreyttar á ástæðum aukins jarðhita, það er að segja að minniháttar kvikuinnskot hafi orðið á um 2-6 kílómetra dýpi undir fjallinu. Heldur hefur dregið úr jarðskjálftum síðustu daga en ekki þegar lengra tímabil er tekið og það bendir því ekki til annars en að atburðarásin sé enn í gangi.

Fram kemur í niðurstöðum mælinga að afl jarðhitans í sigkatlinum sé sennilega milli 100 og 150 MW sem sé svipað og sést hafi í sigkötlum í Bárðarbungu og víðar. Í ljósi þess hve hratt ketillinn stækkaði fyrri hluta nóvember verði að teljast sennilegt að þá hafi runnið fram vatn sem safnast hefði fyrir undir katlinum í margar vikur eða jafnvel mánuði.

„Mælingarnar sýna að ketillinn er að nánast hringlaga. Þvermál þess svæðis þar sem sigs gætir er 1200-1500 metrar. Sé mælt milli þeirra staða þar sem dýpi er 10% af mesta dýpi fást 1000-1100 metrar. Í samanburði við flesta sigkatla er þessi fremur víður og grunnur enn sem komið er,“ segir ennfremur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »