„Það hefur bara allt sinn tíma“

Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri.
Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta er bara ákvörðun innan fjölskyldunnar að hætta núna,“ segir Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum, í samtali við mbl.is en tekin hefur verið ákvörðun um að loka gestastofunni á bænum um áramótin þar sem tekið hefur verið á móti miklum fjölda ferðamanna undanfarin sjö ár og frætt þá einkum um eldgosið í Eyjafjallajökli.

Ólafur segir aðspurður að ástæðan fyrir lokuninni sé ekki minnkandi aðsókn ferðamanna heldur þvert á móti sú að vinnan við gestastofuna og ferðaþjónustuna hafi lent að mestu leyti á heimilisfólkinu á bænum til viðbótar við önnur störf. Erfiðlega hafi gengið að fá fólk til starfa og húsnæðið varla annað eftirspurninni á háannatímum. Mikið álag hafi fyrir vikið verið á fjölskyldunni og því hafi verið ákveðið á þessum tímapunkti að staldra við.

Verðið ekki hækkað í bráðum fjögur ár

„Það var nú kannski ekki ætlunin í byrjun að þetta yrði svona. Aðsóknin er auðvitað búin að vera alveg ótrúleg. Það er þannig ekki út af því að hún sé hrunin,“ segir Ólafur. Spurður hvort hann hafi tekið eftir einhverjum breytingum á ferðamannastrauminum í gegnum tíðina segir hann svo óneitanlega vera og aðallega hjá ferðafólki á eigin vegum.

Ferðamenn á eigin vegum kaupi þannig til að mynda litla þjónustu aðra en gistingu. Þeir skoði aðallega náttúruna og versli sér nauðsynjar í búðum. Þetta hafi þó ekki haft áhrif á aðsóknina að Gestastofunni og tengist ekki ákvörðun fjölskyldunnar. „Enda höfum við ekki hækkað verðið hjá okkur í bráðum fjögur ár og verið með hófleg verð.“

Ólafur bætir því við að hugmyndin með Gestastofunni hafi ekki síst verið sú að veita upplýsingar um eldgos á Íslandi. „Skilaboðin hafa verið þau að óhætt sé að koma til Íslands þó hér séu mörg eldfjöll og að þau gjósi annað slagið. Hér sé viðbúnaður til að takast á við það.“ Það hafi verið þörf á að einhver á svæðinu tæki það hlutverk að sér.

„Höfum haft mikla ánægju af þessu“

„Þannig að við ætlum bara að doka við og sjá til. Þetta er búinn að vera ágætur tími en ég veit svo sem ekkert hvað verður þarna áfram eftir þetta. Það er óákveðið. Fólk stoppar líka mikið við veginn til þess að njóta útsýnisins upp á jökulinn. Það er ekkert að fara. En við erum ágætlega sátt við það að breyta til og láta þetta gott heita.“

Þetta hafi verið mikil vinna og lítið verið hægt að komast frá. „En við höfum haft mikla ánægju af þessu, það er ekki hægt að segja annað. Ekki síst vegna þess að gestirnir okkar hafa verið mjög ánægðir með heimsóknina til okkar sem hefur veitt okkur þann styrk að standa vaktina í sjö ár. En það hefur bara allt sinn tíma.“

Þorvaldseyri þegar eldgosið í Eyjafjallajökli stóð yfir.
Þorvaldseyri þegar eldgosið í Eyjafjallajökli stóð yfir. mbl.is/Golli
mbl.is