Þýðir ekki að grenja endalaust yfir laununum

Anna María var í dag kjörin varaformaður Kennarsambands Íslands.
Anna María var í dag kjörin varaformaður Kennarsambands Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Nýr varaformaður Kennarasambands Íslands telur mikilvægt að kennarar vinni að sínum málum í gegnum fagleg málefni í stað þess að grenja endalaust yfir laununum. Slíkt geri virðingarverðar stéttir ekki.

Anna María Gunnarsdóttir hlaut afgerandi kosningu í embætti varaformanns sambandsins með 52,86 prósent greiddra atkvæða. Upphaflega voru sex í framboði en tveir drógu framboð sitt til baka vegna vantrausts á nýkjörinn formann, Ragnar Þór Pétursson.

„Kennarar hafa kannski átt svolítið undir högg að sækja, en ég hef alltaf trú á því að við verðum að vinna að okkar málum í gegnum fagleg málefni. Það þýðir ekkert að standa og grenja yfir laununum endalaust. Virðingarverðar stéttir gera það ekki, eins og tannlæknar, þú myndir aldrei heyra þá kvarta undan laununum sínum. Þeir tala um hvað þetta sé erfitt og flókið starf og eitthvað svoleiðis. Við eigum að tala fyrir því að þetta sé faglegt erfitt starf,“ segir Anna María í samtali við mbl.is.

Hún vill meðal annars leggja áherslu á að vinna að aukinni virðingu á kennarastarfinu, enda sé um krefjandi og faglegt starf að ræða sem þurfi að gera hærra undir höfði. „Það eru ótrúlega margir sem gefast upp á því að kenna. Þetta er auðvitað frekar erfitt starf. Það er ekki nema um helmingurinn af útskrifuðum kennurum, sérstaklega grunnskólakennurum, sem eru að vinna við eitthvað annað. Sem segir okkur kannski hvað þetta er góð menntun,“ segir Anna María. Hún bendir þó að staðan sé ekki alveg sú sama meðal framhaldsskólakennara, þar sem fleiri skili sér í kennslu.

Vill meiri starfsþróun og stuðning við nýliða

Í lögum sambandsins segir að formaður og varaformaður skipti með sér verkum, en Anna María vonast til að fá að hafa á sinni könnu skólamál, vinnuumhverfismál, fræðslumál og jafnréttismál, sem eru þau mál sem varaformaður hefur sinnt síðustu ár. Anna María þekkir þessa málaflokka vel því hún hefur unnið að þeim á vettvangi félags framhaldsskólakennara síðustu ár, þar sem hún hefur verið formaður skólamálanefndar.

„Ég vil þá að vinna að aukinni virðingu á kennarastarfinu, meiri starfsþróun, að það verði meiri stuðningur við nýliða og starfandi kennara. Ég vil að það sé lögð áhersla á jafnréttismál og bætt vinnuumhverfi og fræðslu við kennara um réttindi sín og fagleg málefni.“

Það leggst að vonum vel í Önnu Maríu að fá að gegna embættinu en hún viðurkennir að hún eigi eftir að læra ýmislegt áður en hún hefst handa. „Ég er búin að kenna mjög lengi og ég er mjög spennt að takast á við ný verkefni. Svo vona ég bara að þetta gangi vel,“ segir Anna María sem hefur starfað sem íslenskukennari við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, en hefur í vetur verið í námsleyfi.

Tjáir sig ekki um ásakanir á hendur formanninum

Anna María segist ekki hafa forsendur til að tjá sig um þær ásakanir sem komið hafa fram á hendur Ragnari Þór, formanni sambandsins, um að hann hafi brotið gegn blygðunarsemi barns. „Ég bauð mig fyrst og fremst fram til að vinna að málefnum kennara. Ég hef engar forsendur til að tjá mig um hitt.“

Anna María vísaði svo í fyrri yfirlýsingu sína vegna málsins þar sem segir: „Ástæða þess að ég býð mig fram til vara­for­manns KÍ er sú að ég hef brenn­andi áhuga á mennta­mál­um og tel að ég geti gert kenn­ara­stétt­inni í heild gagn verði ég kos­in vara­formaður KÍ burt­séð frá því hver gegn­ir for­mann­sembætt­inu. Fram­boð mitt er á eig­in for­send­um óháð því hver starfar sem formaður.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert