Hálfum milljarði meira til Landsréttar

Landsréttur hefur störf 1. janúar.
Landsréttur hefur störf 1. janúar. mbl.is/Hjörtur

Alls verður 681 milljón króna varið til Landsréttar á árinu 2018, samkvæmt nýjum fjárlögum. Landsréttur tekur til starfa um næstu áramót.

Heildarfjárheimildin hækkar um 576,4 milljónir króna frá gildandi fjárlögum. Hækkun vegna almennra launa- og verðlagsbreytinga er 13,5 milljónir króna og að henni frátaldri eru framlög aukin um 562,9 milljónir króna til að standa undir rekstri Landsréttar.

Til réttarins verður hægt að skjóta úrlausnum héraðsdóms með sömu skilyrðum og nú gilda um málskot til Hæstaréttar.

Til samanburðar verður 1.752 milljónum króna varið til héraðsdómstóla. Fjárhæðin lækkar um 89 milljónir króna frá gildandi fjárlögum.

Alls verður 452,9 milljónum króna varið til Hæstaréttar, sem er hækkun um 14,4 milljónir frá gildandi fjárlögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert