105 milljónir til að passa upp á stefnu VG

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, byrjaði ræðu sína í kjölfar stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld á að óska Katrínu Jakobsdóttur til hamingju með embættið. „Henni tókst að beygja bakland eigin flokks, en 3% kjósenda vinstri grænna vildu fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, og á sama tíma að leggja gjörvallan Sjálfstæðisflokkinn að fótum sér, ef hann var ekki þegar liggjandi þegar hún fann hann. Það er sannarlega ekki lítið afrek.“

„Það er óþarfi að hrósa ráðherranum sérstaklega fyrir að ná þriðja flokknum, enda hafði hann, eins og ráðherrann vissi, auglýst sig á brunaútsölu frá því eftir þar síðustu kosningar.“

Sigmundur sagði ræðu forsætisráðherra veita litla innsýn í hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera, en ákvað að líta til vísbendinga sem blasi við. „Við höfum fengið ríkisstjórn sem talar mikið um að hún ætli að útdeila gæðum, útdeila fjármagni sem varð til með hinum risastóru aðgerðum síðustu ára. En á sama tíma ætlar stjórnin að leyfa algjört bakslag í þeim aðgerðum sem skiluðu árangrinum. Leyfa þeim að snúast upp í andhverfu sína.“

„Um leið og við horfum upp á eftirgjöf stóru sigranna, sem skiluðu hinum mikla efnahagsárangri sem nú á að nýta, sjáum við stjórnina pikkfesta samfélagið í viðjum kerfishugsunar aftur frá síðustu öld.“

Sagði hann þetta ekki ríkisstjórn stórra ákvarðana og ekki umbótastjórn heldur kerfisstjórn. „En réttlætingin er sú að kalla þetta stöðugleikastjórn sem vilji ekki takast á við stór pólitísk álitamál. Hún ætlar að útdeila peningum í núverandi kerfi og láta svo kerfið um að stjórna.“

„Hvar í stjórnarsáttmálanum finna Framsóknar- eða Sjálfstæðismenn áherslur sem þeir geta verið stoltir af?“ spurði Sigmundur. 

Hann sagði forystumenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks ekki í stakk búna til að tryggja pólitískan stöðugleika, enda hefðu þeir gefist upp í síðustu ríkisstjórn fyrir „sömu vinstri græningjum og þeir liggja nú killiflatir fyrir í stjórnarsamstarfi.“

„Í fjárlögum er gert ráð fyrir að auka framlög til forsætisráðuneytisins um 50% milli ára. Ég hef aldrei séð aðra eins aukningu hjá nokkru ráðuneyti. Þetta er miklu meira en gert var ráð fyrir í fjárlögunum sem kynnt voru í september síðastliðnum. Stór hluti af aukningunni er nýtt 105 milljóna króna framlag sem á að nota í forsætisráðuneytinu til að hafa eftirlit með ráðherrum ríkisstjórnarinnar, samræma aðgerðir og passa upp á að þeir fylgi réttri stefnu.“

„Fyrir þessa upphæð gæti forsætisráðherra ráðið 10 manns á góðum launum til að hafa eftirlit með ráðherrunum. Einn eftirlitsmann fyrir hvern ráðherra. 105 milljónir á ári í að passa upp á að stefnu Vinstri grænna verði framfylgt.“

Að lokum sagði hann ekkert samfélag hafa verið byggt upp á innihaldslausum frösum stjórnmálamanna, en að þeir væru hins veg iðulega fylgifiskur slæmra ákvarðana eða ákvarðanaleysis. „Vonandi mun nýrri ríkisstjórn þora að taka stórar ákvarðanir sem reynast munu samfélaginu vel. Og vonandi mun hún taka leiðsögn og ábendingum um hvernig megi gera hlutina betur.“

mbl.is