Dómur í sama máli sama dag 2 árum síðar

Frá aðalmeðferð Stím-málsins í nóvember.
Frá aðalmeðferð Stím-málsins í nóvember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nákvæmlega tveimur árum eftir að dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í Stím-málinu svokallaða verður aftur kveðinn upp dómur í málinu eftir seinni umferð þess hjá héraðsdómi. Hittir svo á að í bæði skiptin var dómur kveðinn upp 21. desember. Í fyrra skiptið árið 2015, en núna árið 2017.

Upphafleg aðalmeðferð í málinu fór fram í nóvember 2015. Var það dómtekið 24. nóvember og var dómur kveðinn upp þremur vikum og sex dögum síðar, 21 desember. Var Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis þar dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir umboðssvik. Jó­hann­es Bald­urs­son, sem var fram­kvæmda­stjóri markaðsviðskipta, var dæmdur í tveggja ára fangelsi einnig fyrir umboðssvik og Þor­vald­ur Lúðvík Sig­ur­jóns­son, fyrr­ver­andi banka­stjóri Saga Capital, var dæmd­ur í 18 mánaða fang­elsi fyr­ir hlut­deild að umboðssvik­um.

Málinu var síðar áfrýjað til Hæstaréttar, en ákveðið var að taka fyrir hugsanlegt vanhæfi dómara málsins, Sigríðar Hjaltested. Hafði hún lýst sig vanhæfa í öðru máli tengdu Glitni skömmu eftir að dómur í Stím-málinu féll vegna þess að gögn þess máls tengdust meðal annars fyrrverandi eiginmanni hennar og barnsföður sem starfaði hjá Glitni. Þá hefði maðurinn stöðu sakbornings í máli sem væri til meðferðar hjá héraðssaksóknara.

Verjendur í Stím-málinu við aðalmeðferð þess árið 2015.
Verjendur í Stím-málinu við aðalmeðferð þess árið 2015. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstiréttur féllst á að fella fyrri dóminn úr gildi og var málinu vísað í hérað að nýju. Þar tóku við deilur um hæfi dómara, en Símon Sigvaldason var dómari málsins. Ekki var fallist á að hann væri vanhæfur til að dæma málið. Þá var heldur ekki fallist á meint vanhæfi meðdómara málsins.

Aðalmeðferð annarrar umferðar málsins hófst 16. nóvember og sem fyrr segir verður dómsuppkvaðning núna aftur þann 21. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert