Elliði vill leiða áfram í Eyjum

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, ætlar að gefa kost á …
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, ætlar að gefa kost á sér til að leiða lista Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum á næsta kjörtímabili. Árni Sæberg

Elliði Vigfússon, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, tilkynnti í dag á vef sínum Ellidi.is að hann gefi áfram kost á sér til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Eyjum.

„Undanfarið hef ég eytt talsverðum tíma í að líta yfir farinn veg og hugsa um framtíðina, vitandi hversu dýrmætur lærdómur það hefur verið mér að hafa gegnt þeirri stöðu sem ég hef gert nú í hartnær 12 ár,“ segir Elliði á vef sínum.

Hann sé stoltur af því verki sem unnið hefur verið á þessum árum og samfélaginu í Eyjum. „Samfélagi sem gleðst saman þegar sigrar eru og sýnir samkennd þegar harmleikir eiga sér stað. Umfram allt í samfélagi með stórkostlegum íbúum sem ætíð eru tilbúnir til að leggja lykkju á leið sína fyrir samfélagið.“

Það sé þó vissulega líka stundum tekist á og alltaf megi gera betur.

„Sumu stjórnum við einfaldlega ekki ein og það getur sannast sagna verið hundfúlt að fá ekki að bera ábyrgð á grunnþáttum samfélags okkar. Í þeim málum hef ég eins og kostur er reynt að leggja mig fram um að niðurstaðan verði ætíð sem hagstæðust fyrir sveitarfélagið og íbúa þess.“

Undanfarna mánuði hafi margir spurt hann hvort hann muni sækjast eftir endurkjöri á næsta kjörtímabili. „Eftir að hafa farið yfir málin með fjölskyldu minni, vinum og samstarfsfólki hef ég tekið ákvörðun um að láta reyna á hvort ég hafi áfram traust Eyjamanna til að vinna sveitarfélaginu gagn. Ég hef því tekið ákvörðun um að gefa kost á mér til að leiða lista Sjálfstæðismanna í kosningum í vor,“ segir Elliði á vef sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert