Vonar að tilboði flugvirkja verði svarað

Ein af flugvélum Icelandair stendur hreyfingarlaus úti á flugbraut í …
Ein af flugvélum Icelandair stendur hreyfingarlaus úti á flugbraut í verkfalli flugvirkja. Ljósmynd/Víkurfréttir

Samninganefndir Flugvirkjafélags Íslands og Icelandair munu hittast á ný á fundi í húsakynnum ríkissáttasemjara klukkan fimm í dag, en samninganefndirnar funduðu til klukkan þrjú í nótt, þegar upp úr viðræðunum slitnaði. Verkfall flugvirkja hófst klukkan sex í morgun og hefur þegar valdið því að aflýsa hefur þurft fjölda flugferða hjá Icelandair, en búast má við að verkfallið hafi áhrif á 10 þúsund farþega hvern dag sem það varir.

Gunnar R. Jónsson, formaður samninganefndar flugvirkja, segist ekki vita til þess að eitthvað hafi breyst frá því í nótt. „Við vonum að okkar tilboði verði svarað sem við lögðum á borðið síðast. Það slitnaði upp úr viðræðunum í gær þannig að við lögðum gagntilboð á borðið sem Icelandair hafnaði í heild sinni. Þeir vildu ekki svara því, sem kom okkur þó nokkuð á óvart. Það er vonandi að þeir séu tilbúnir að svara því núna.“

Gunnar er hæfilega bjartsýnn á að samningar náist á þessum fundi. „Ég vona að við náum að opna þessar viðræður og koma þessu í gang á ný.“ Það kæmi honum ekki á óvart að fundað yrði langt fram á nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert