„Hver veit hvenær þeir koma loks heim“

Mikil röskun hefur orðið á flugi Icelandair og hafa þeir …
Mikil röskun hefur orðið á flugi Icelandair og hafa þeir Ingi og Ísak fengið að finna fyrir því. Ljósmynd/Víkurfréttir

Ingi Freyr Sveinbjörnsson er nú strandaglópur í Stokkhólmi í Svíþjóð vegna verkfalls flugvirkja Icelandair. Hann og félagi hans, Ísak Andri, eiga að baki langt ferðalag frá Suður-Kóreu þar sem þeir voru að kynna Sled Dogs-snjóskauta. Icelandair átti að sjá um að flytja þá síðasta legginn heim, ekki varð úr að þeir kæmust heim í dag eins og til stóð. Þeir fengu þær upplýsingar frá Icelandair að flugfélagið myndi ekki útvega gistingu fyrir fólk, en það væri hins vegar hægt að sækja um að fá kostnaðinn endurgreiddan.

Eiginkona Inga, Dagný Björg Gunnarsdóttir, hefur verið þeim innan handar og reynt að fá upplýsingar frá Icelandair. Blaðamaður heyrði í henni þar sem þeir félagar höfðu loksins fengið hótelherbergi og voru sofnaðir á ellefta tímanum í kvöld.

„Ég hef átt í löngum viðræðum við starfsfólk í þjónustuveri Icelandair og flest hefur það reynst verulega hjálpsamt þó að það sé augljóst að það les upp úr handbókinni og er vel þjálfað í að segja ekki of mikið. Það varð allavega ljóst mjög snemma í morgun að flugi þeirra frá Svíþjóð var aflýst.“

Dagný beið svo í rúma tvo tíma í símanum í morgun til að fá þau svör að Icelandair myndi ekki bóka gistingu fyrir fólk í þessum aðstæðum, en hægt væri að sækja um endurgreiðslu á útlögðum kostnaði.

„Icelandair bókaði þá í flug á morgun frá Svíþjóð en auðvitað vitum við ekkert hvort af því flugi verður. Það eru ýmsar leiðir í boði, til dæmis Svíþjóð-Varsjá og Varsjá-Gdansk og Gdansk-Ísland eða um það bil 20 tíma ferðalag, sem væri auðvitað draumur ofan á þessa ferð,“ segir Dagný og vísar þar til ferðalagsins fá Suður-Kóreu sem þeir Ingi og Ísak voru að koma úr.

„Þeir lögðu af stað um kaffileytið á laugardag að íslenskum tíma og áttu að lenda um miðnætti á sunnudag. Hver veit hvenær þeir koma loks heim til Akureyrar.“

Í gær, þegar líklegt var orðið að til verkfalls kæmi, ákvað Dagný að skoða flug fyrir þá með WOW-air bæði á morgun og á þriðjudag til að athuga hvort það borgaði sig ekki bara að bóka það strax. Hún sá verðið á þeim ferðum en ákvað að bíða með að panta fyrst þeir voru lagðir af stað. Í dag kíkti hún svo aftur á flug með WOW-air. „Þá er það athyglisverði punkturinn; flugið hjá WOW hafði hækkað úr rúmum 16.800 krónum, með töskum, í 39.971 krónu með töskum. Það er þó strax ódýrara á miðvikudaginn, en ætli þeir geri ekki ráð fyrir að verkfalli verði lokið þá,“ segir Dagný. Henni þykir þetta vægast sagt mikil hækkun á innan við sólarhring.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert