Með 80 þúsund í heildartekjur á mánuði

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, hefur boðað til neyðarfundar í …
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, hefur boðað til neyðarfundar í stjórninni vegna fjárlagafrumvarps nýrrar stjórnar. Ljósmynd/ÖBÍ

„Við erum jafnvel með fólk sem er að fá 80.000 í heildartekjur á mánuði og ekkert annað,“ sagði Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni nú í morgun. „Við verðum að finna leiðir með stjórnvöldum til að bæta þetta, því það getur enginn lifað á þessu.“ Líklegt megi telja að þeir einstaklingar sem eru með þetta litlar tekjur séu einfaldlega á götunni.

Þuríður Harpa hefur boðað til neyðarfundar í stjórn Öryrkjabandalagsins, vegna fjárlagafrumvarps nýrrar ríkisstjórnar. Segir hún frumvarpið hafa valdið öryrkjum miklum vonbrigðum, en ÖBÍ hafi bundið vonir við að nýja stjórnin yrði meira afgerandi og myndi bæta kjör öryrkja, fatlaðra og langveikra.

„Við sáum hins vegar mjög fljótt að það voru engar breytingar í spilinu,“ segir hún. Sú litla hækkun sem gert sé ráð fyrir sé sú sama og í fjárlagafrumvarpi fyrri stjórnar og það hafi ekki verið nein raunveruleg hækkun, heldur eingöngu verðlagsuppfærsla. Sú hækkun nemi á bilinu 6-12 þúsund krónum á mánuði í vasa öryrkja og þar af fái um 70% ekki nema 6.000 kr. að hámarki.

„Það eru ekki nema 30% sem fá um 12.000 krónur. Þessi upphæð verður líka fljót að fara og er í engu samhengi við verðlagsþróun eða launavísitölu.“

Þurfa áfram að bíða eftir réttlæti

Minnir Þuríður Harpa á að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi haft á orði í september að ekki ætti að biðja fátækt fólk að bíða eftir réttlætinu. „Mér sýnist við samt þurfa að gera það,“ segir hún.

Þingmenn hafi líka virst sammála um það fyrir kosningar að auðvelt yrði að afnema krónu á móti krónu skerðingu á bótum. „En það virðist vera gleymt, þrátt fyrir að þetta sé kerfi sem virkar mjög letjandi.“

Hún segir ÖBÍ þó hafa fundað með Ásmundi Daða Einarssyni velferðarráðherra eftir að hann tók við, sem sé jákvætt.

„Við bundum vonir við að þessi nýja stjórn myndi einbeita sér að því að hækka örorkulífeyri af því að Katrín hafði sjálf lýst því yfir.“ Forsætisráðherra einn beri þó ekki ábyrgðina og hún telji hana koma til með að gera góða hluti. „Ég ætla mér að eiga gott og vonandi mikið samstarf við þessa stjórn,“ sagði Þuríður Harpa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert