Kæru á hendur MAST vísað frá

MAST synjaði um innflutning á tveimur hundum af tegundinni Akita …
MAST synjaði um innflutning á tveimur hundum af tegundinni Akita Inu í sumar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Nýlega vísaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið frá kæru á hendur Matvælastofnun. Ástæðan var sú að meira en þrír mánuðir voru liðnir frá ákvörðun stofnunarinnar og því of seint fyrir kærendur að reyna að fá ákvörðuninni hnekkt hjá æðra stjórnvaldi.

Þetta kemur fram á vefsíðu Matvælastofnunar.

Í júlí 2017 synjaði Matvælastofnun um innflutning á tveimur hundum af tegundinni Akita Inu.  Var það gert á þeim grundvelli að aldrei hefði verið heimilað að flytja inn hunda af þessari tegund þar sem tegundin væri talin árásargjörn.

Umsækjendur voru óánægðir með þessa synjun og kærðu hana til ráðuneytisins. Það gerðu þeir hins vegar ekki fyrr en rúmum tveimur vikum eftir að kærufrestur rann út. 

Æðra stjórnvaldi er reyndar heimilt að taka kæru sem kemur of seint til efnismeðferðar ef talið verður afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að málið verði tekið til meðferðar. Ráðuneytið taldi hvoruga ástæðuna eiga við og því var kærumálinu vísað frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert