Krafan komin „verulega frá“ 20%

Flugvirkjar að störfum.
Flugvirkjar að störfum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Formaður Flugvirkjafélags Íslands segir kröfu um 20% launahækkun flugvirkja hjá Icelandair hafa kannski verið lagða fram „á einhverjum tímapunkti fyrir langalöngu“. „Hún hljóðaði einhvers staðar þar um kring en hún er komin verulega frá því,“ segir Óskar Einarsson.

„Tímalengd samningsins minnkar alltaf prósentuvægið sem liggur fyrir.“

Áttar sig ekki á stefnunni 

Spurður út í stöðu mála eftir síðasta fund í kjaradeilunni sem stóð langt fram á nótt segir hann: „Við vorum vissulega að nálgast hvor annan en miðað við það sem ber á milli þá eru einhverjar aðrar hvatir á bak við þetta heldur en sá kostnaður,“ segir Óskar og á við kostnaðinn sem ber á milli, bæði í launakröfu og hvað varðar samningstímann.

„Miðað við hvað það er lítið þá átta ég mig ekki alveg á hvert þeir eru að stefna,“ segir hann um viðsemjendur.

Frá Keflavíkurflugvelli í morgun.
Frá Keflavíkurflugvelli í morgun. mbl.is/​Hari

Búið að gangast við leiðréttingunni

Hann segir flugvirkja fara fram á ákveðnar launahækkanir og inni í þeim séu leiðrétting og samningstíminn, auk kjarabóta. Búið sé að lengja verulega í samningstímanum til að koma til móts við viðsemjendur.

Spurður nánar út í leiðréttinguna segir Óskar flugvirkja telja sig eiga inni ákveðna leiðréttingu og þeir vilji sækja hana. „Við erum búnir að sýna fram á að við eigum hana inni. Það er búið að gangast við henni en það er verið að bjóða hana áfram í pakkanum,“ segir hann. „Hún er áfram boðin í kjarabótunum sem við erum að sækja og það er ekki þannig sem við viljum sjá það.“

„Áberandi þungt síðan 2008“

Gagnrýnt hefur verið hversu oft flugvirkjar hafa átt í kjaradeilum undanfarin ár. Óskar segir að það þurfi tvo til í deilum. „Það hefur vissulega verið áberandi þungt síðan 2008 frá því að þessir stjórnendur tóku við fyrirtækinu. Þeir vilja oft fara með það í þessa átt,“ segir hann og nefnir að núverandi viðræður hafi staðið yfir síðan í júlí. „Við erum ekkert einir við samningaborðið. Það er ekkert tekið mark á okkar kröfum fyrr en það er farið að hylla í einhverjar aðgerðir,“ bætir hann við og segir flugvirkja ætla að reyna sitt besta til að ná samningum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert