Dæmdar miskabætur í Landsréttarmálinu

Hæstiréttur Íslands kvað upp sinn dóm í dag.
Hæstiréttur Íslands kvað upp sinn dóm í dag. mbl.is/Ófeigur

Hæstiréttur hefur sýknað íslenska ríkið um viðurkenningu á skaðabótakröfu við Ástráð Haraldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannsson í Landsréttarmálinu. Ríkið er hins vegar dæmt til að greiða þeim samtals 1,4 milljónir króna í miskbætur, eða 700.000 kr. til hvors þeirra.

Þetta er niðurstaða Hæstaréttar sem kvað upp dóma í málum þeirra í dag. Sem má lesa hér og hér.

Ástráður og Jóhannes voru á meðal 33 umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt og meðal þeirra 15 sem dómnefnd samkvæmt lögum um dómstóla hafði talið meðal hæfustu til að gegna því embætti.

Þegar Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra gerði tillögu til Alþingis um þá 15 umsækjendur sem skipa skyldi dómara vék ráðherra frá niðurstöðum nefndarinnar varðandi fjóra umsækjendur og voru Ástráður og Jóhannes ekki á meðal þeirra sem lagt var til að yrðu skipaðir.

Kröfðust ógildingar á ákvörðunum ráðherra, viðurkenningar á skaðabótaskyldu og miskabóta

Alþingi samþykkti tillögur ráðherra og í kjölfarið höfuðu þeir mál þetta á hendur íslenska ríkinu og kröfðust í fyrsta lagi ógildingar á ákvörðunum ráðherra, í öðru lagi viðurkenningar á skaðabótaskyldu ríksins og í þriðja lagi miskabóta.

Með dómum Hæstaréttar í tveimur málum, máli nr. 451/2017 og 452/2017, var úrskurður héraðsdóms um að vísa viðurkenningarkröfu Ástráðs og Jóhannesar frá dómi felldur úr gildi, en niðurstaða hans um frávísun á ógildingarkröfunni staðfest. Var því einungis deilt um viðurkenningu á bótaskyldu íslenska ríkisins og rétt Ástráðs og Jóhannesar til miskabóta.

Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að það væri óskráð meginregla að stjórnvaldi sem skipar í opinbert starf eða embætti beri hverju sinni að velja hæfasta umsækjandann. Áður hefði sú skylda hvílt á ráðherra dómsmála að sjá til þess að þau atriði sem máli skiptu við það mat væru nægjanlega upplýst. Við gildistöku reglna um dómnefndir til að meta hæfni umsækjenda um dómaraembætti hefði þeirri rannsóknarskyldu hins vegar að verulegu leyti verið létt af ráðherra og þess í stað lögð á herðar sjálfstæðrar og óháðrar dómnefndar.

Ástráður Haraldsson og Jó­hann­es­ Rún­ar Jó­hanns­son­.
Ástráður Haraldsson og Jó­hann­es­ Rún­ar Jó­hanns­son­. Samsett mynd

Samkvæmt því hefði verið lagt til grundvallar í dómaframkvæmd að ef dómsmálaráðherra gerði tillögu til Alþingis um að vikið yrði frá áliti dómnefndar, væri óhjákvæmilegt að sú ákvörðun væri reist á frekari rannsókn ráðherrans eftir 10. gr. stjórnsýslulaga.

Málsmeðferðin andstæð stjórnsýslulögum

Að þessu gættu taldi Hæstiréttur ljóst að dómsmálaráðherra hefði að lágmarki borið að gera samanburð á hæfni annars vegar þeirra fjögurra umsækjenda sem dómnefndin hafði metið meðal 15 hæfustu en ráðherra ekki gert tillögu um og hins vegar þeirra fjögurra umsækjenda sem ráðherra gerði tillögu um í þeirra stað.

Gögn málsins bæru á hinn bóginn ekki með sér að slík rannsókn hefði farið fram af hálfu ráðherra. Samkvæmt því hefði málsmeðferð hans verið andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga og af því leiddi að það sama ætti við um meðferð Alþingis á tillögu ráðherra þar sem ekki hefði verið bætt úr þeim annmörkum sem málsmeðferð ráðherra var haldin.

Með því að Ástráður og Jóhannes höfðu ekki lagt fram fullnægjandi gögn til sönnunar á því að þeir hefði orðið fyrir tjóni vegna þessa var viðurkenningarkröfu þeirra hafnað, en hins vegar var talið að fullnægt væri skilyrðum b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga til að dæma þeim miskabætur úr hendi íslenska ríkisins og voru þær ákveðnar 700.000 krónur til hvors þeirra.

Töldu vegið að þeirra starfsheiðri og orðspori

Í dómi Hæstaréttar segir, að krafa þeirra um miskabætur hefðu verið reistar á því að dómsmálaráðherra hefði með háttsemi sinni vegið að starfsheiðri þeirra, orðspori, reynslu og hæfni. Ráðherranum hefði mátt vera ljóst að aðgerðir hennar gætu að ófyrirsynju bitnað á orðspori og starfsheiðri þeirra og orðið þeim þannig að meini. Þrátt fyrir það hefði ráðherra gengið fram án þess að skeyta nokkuð um þessa augljósu hættu. Í þessari háttsemi ráðherra hafi falist meingerð gegn æru áfrýjanda og persónu, sbr. b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Hæstiréttur segir að dómsmálaráðherra hafi ekki farið eftir þeim reglum sem beri að fylgja þegar hún gerði tillögu um að vikið yrði frá áliti dómnefndar varðandi veitingu áðurnefndra fjögurra dómaraembætta við Landsrétt. 

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert

Í niðurstöðu Hæstaréttar í málum Jóhannesar og Ástráðs segir orðrétt:

Þau atriði sem dómsmálaráðherra færði fram til stuðnings ákvörðun sinni eftir að hún var tekin og send Alþingi gátu eins og áður er rakið ekki bætt úr þeim annmarka sem fyrir hendi var á málsmeðferð hennar. Þótt ekkert sé komið fram í málinu um að ráðherrann hafi hagað gerðum sínum sérstaklega til að beina meingerð að æru eða persónu áfrýjanda höfðu ákvarðanir hennar eigi að síður þær afleiðingar að bættur var hlutur einhvers úr hópi fjögurra annarra umsækjenda sem dómnefnd hafði raðað lægra en áfrýjanda. Þótt ráðherrann hafi ekki í tengslum við þetta látið orð falla til að vega að persónu eða æru áfrýjanda verður ekki fram hjá því litið að henni mátti vera ljóst að þessar gerðir gætu að ófyrirsynju bitnað á orðspori áfrýjanda og orðið honum þannig að meini. Þrátt fyrir þetta gekk ráðherrann fram án þess að skeyta nokkuð um þessa augljósu hættu. Að þessu virtu verður að líta svo á að fullnægt sé skilyrðum b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga til að dæma áfrýjanda miskabætur úr hendi stefnda, sbr. til hliðsjónar áðurnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 412/2010. Þær miskabætur eru hæfilega ákveðnar 700.000 krónur.“

Fóru fram á eina milljón í miskabætur í héraði

Ástráður og Jóhannes gerðu þá kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að viðurkenndur yrði réttur þeirra til skaðabóta úr hendi íslenska ríkisins vegna þess tjóns sem ákvörðun Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra þann 29. maí 2017, um að leggja ekki til að þeir yrðu skipaður í stöðu dómara við Landsrétt, hafði í för með sér fyrir þá.

Jafnframt kröfðust þeir þess að viðurkenndur yrði réttur þeirra til skaðabóta vegna þess tjóns sem ákvörðun dómsmálaráðherra um að leggja til við forseta Íslands að þeir yrðu ekki meðal þeirra 15 sem skipaðir yrðu í starf dómara við Landsrétt hafði í för með sér fyrir þá.

Ástráður og Jóhannes gerðu einnig kröfu um að ríkið myndi greiða hvorum um sig 1.000.000 í miskabætur vegna þeirrar ólögmætu meingerðar gegn æru þeirra sem fólst í ákvörðunum ráðherra. Þá kröfðust þeir þess krafist að íslenska ríkið verði dæmt til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Sýknað af skaðabótakröfu en annmarkar á málsmeðferðinni

Í dómi héraðsdóms, sem féll 15. september var ríkið sýknað af kröfum þeirra, en dómstóllinn sagði ennfremur að stjórnsýslumeðferð dómsmálaráðherra við skipun Landsréttardómara hefði ekki verið í samræmi við ákvæði laga um dómstóla frá árinu 2016. 

Í dómi héraðsdóms sagði ennfremur, að það yrði að telja að meðferð ráðherr­ans á um­sókn­um um embætti dóm­ara Lands­rétt­ar, og það mat sem hún lagði á um­sókn­irn­ar, hefði „verið hald­in slík­um ann­mörk­um að ekki séu for­send­ur til að full­yrða hvort ráðherra hafi lagt til skip­un 15 hæf­ustu um­sækj­endanna til Alþing­is.“

Dómur héraðsdóms í máli Ástráðar Haraldssonar 

Dómur héraðsdóms í máli Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert