Peningarnir færðir til Íslands í þvott

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það bendir ýmislegt til þess,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, spurð um hvort Pólverjarnir þrír sem sitja í gæsluvarðhaldi hafi komið með fé erlendis frá í þeim tilgangi að þvætta peningana á Íslandi.

Hún segir að horfa verði til ýmissa þátta þegar velt er upp af hverju svona hópar velji að koma til Íslands, en hátt verð á fíkniefnum spila þar inn í. „Það er náttúrulega hátt verð á fíkniefnum hjá okkur og síðan virðist peningaþvætti vera hluti af þessari starfsemi þannig að það má velta því fyrir sér hvers vegna var Ísland talinn fýsilegur kostur? Þess vegna var svo mikilvægt að pólsk yfirvöld og við höfðum verið að vinna svona náið saman“.

Sigríður segir að vel hafi tekist að samhæfa fjárhagslegu rannsóknina samhliða rannsókn á fíkniefnainnflutningnum. „Það eru nokkur atriði við þetta mál sem eru óvenjuleg og aðallega það hversu mikið var tekið af peningum. Sérstaðan er þessi tenging á milli fjárhagslegu rannsóknarinnar og fíkniefnainnflutningsins. Við erum að reyna að horfa á báða hluti samtímis og elta peningana og við þurftum að  gera skipulagsbreytingar hjá okkur til að ná þessu fram,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri.

Mennirnir þrír eru í einangrun og verða yfirheyrðir á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert