Skallaði mann á Þjóðhátíð í Eyjum

Brotið átti sér stað á Þjóðhátíð.
Brotið átti sér stað á Þjóðhátíð. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í gær karlmann í 30 daga skilorðsbundið fangelsi. Maðurinn er dæmdur fyrir að hafa skallað mann og slegið í höfuðið á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fyrir tveimur árum.

Ákærða er einnig gert að greiða fórnarlambinu 153 þúsund krónur í skaða- og miskabætur, málskostnað brotaþola, upp á 443 þúsund krónur, og allan sakarkostnað, alls 664.370 krónur.

Samkvæmt brotaþola eru málsatvik þannig að hann og hópur fólks gekk í gegnum Herjólfsdal að hvítu tjöldunum þegar ein stúlka í hópnum hafi séð ákærða vera að kasta af sér þvagi inni í hvítu tjaldi.

Hún spurði hvað hann væri að gera en þá „brjálaðist“ ákærði. Hann byrjaði að sveifla höndunum um allt, ein stúlka hafi fengið á sig högg og hann hafi síðan skallað brotaþola í andlitið og kastað sér á hann.

Ákærði sagðist hins vegar hafa verið að pissa þegar fólk hafi allt í einu komið og rifið í hann. Hann mundi það eitt að hann sló óvart einhvern utan undir og baðst fyrirgefningar á því, en sá hafi ekki verið ósáttur. 

Honum hafi síðan verið hent út en ákærði kvaðst ekki hafa skallað neinn. Hann ýtti einhverjum en féll og ákærði ætlaði að kýla þann. Var hann þá dreginn burt og hent út. Kvaðst ákærði hafa fengið glóðarauga við þetta og verið fjólublár við augun og með blóð við góm. Ekki hafi hann fengið þessa áverka við að skalla einhvern.

Brotaþoli leitaði á vaktina í heilsugæslunni í Vestmannaeyjum eftir atvikið. Samkvæmt upplýsingum úr sjúkraskrá sást lítill skurður rétt fyrir neðan vinstra auga.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði níu sinnum áður sætt refsingu, þar af samtals kr. 2.848.000 í fésektir, skv. 5 dómum eða viðurlagaákvörðunum, fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot síðan ákærði framdi brot sitt sem hann er nú dæmdur fyrir. 

Ákærði er dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi.

Dómurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert