Vonandi allt komið í eðlilegt horf

Ró var að mestu komin á Keflavíkurflugvelli í morgun og …
Ró var að mestu komin á Keflavíkurflugvelli í morgun og ljóst að vel gekk að afgreiða morgunflug Icelandair úr landi. mbl.is/Hari

Ró var komin yfir Keflavíkurflugvöll  á níunda tímanum í morgun og því ljóst að Icelandair hefur gengið vel að afgreiða þær fimm vélar sem halda áttu á loft í morgun. Að sögn starfsfólks úti á velli fylltist innritunarsvæðið í morgunsárið og voru vélarnar þó ekki allar fullar. „Það var búið að reyna að koma fólki annað og redda málum fyrirfram,“ sagði starfsmaður í innritun. Vel gekk þó að innrita fólk og virtist léttir greinanlegur hjá þeim sem voru á leið í loftið, þó að einhver seinkun hefði orðið á flugi í nokkrum tilfellum.

Sami léttir var einnig áberandi hjá starfsfólki sem hefur verið undir miklu álagi undanfarna daga, en samningar náðust við flugvirkja Icelandair á fimmta tímanum í nótt og var verkfalli frestað í kjölfarið.

Á innritunarborði Icelandair, starfsfólki söluskrifstofu Icelandair, sem og hjá starfsfólki Isavia var greinilegt að fólk var fegið að áætlunarflug er á leiðinni í samt horf. „Þetta er vonandi allt komið í eðlilegt horf,“ sagði starfsamaður í farþegaþjónustu.

Búið var að afgreiða flesta farþega í flug Icelandair í …
Búið var að afgreiða flesta farþega í flug Icelandair í morgun fyrir 9 þegar blaðamann bar að garði. mbl.is/Hari

Töluverður fjöldi fólks var hins vegar á flugvellinum í nótt að sögn starfsfólks í öryggiseftirliti hjá Isavia og ekki alllir sáttir við þau áhrif sem verkfallið hafði í för með sér á ferðaplön þeirra. Létu sumir reiði sína í ljós og í einhverjum tilfellum kom til smávægilegra stimpinga.

Annríkið sem verið hefur á söluskrifstofu Icelandair á Keflavíkurflugvelli virðist nú úr sögunni, en búast má við að innritunarsvæði Icelandair fyllist aftur seinni partinn er síðdegisvélarnar halda í loftið. Haft hefur verið eftir Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúa Icelandair, að þar vonist menn til þess að það takist í dag að afgreiða 80-90% af þeim farþegafjölda sem missti af flugi vegna verkfallsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert