Andlát: Ólafía Einarsdóttir

Ólafía Einarsdóttir.
Ólafía Einarsdóttir.

Dr. Ólafía Einarsdóttir fornleifafræðingur lést í Kaupmannahöfn í gær, 19. desember. Ólafía fæddist í Reykjavík 28. júlí 1924, dóttir Einars Þorkelssonar og Ólafíu Guðmundsdóttur.

Hún lauk stúdentsprófi frá MR árið 1944 og hóf eftir það nám í fornleifafræði við Lundúnaháskóla og lauk því árið 1948. Varð hún fyrst Íslendinga til þess að ljúka prófgráðu í greininni en leiðbeinandi hennar var einn merkasti fornleifafræðingur 20. aldar, dr. Gordon Childe.

Að námi loknu starfaði Ólafía um hríð við Þjóðminjasafn Íslands og stjórnaði þá meðal annars uppgrefti á merku kumli úr heiðnum sið við bæinn Brennistaði í Eiðaþinghá. Ólafía hélt aftur utan til náms og lauk meistaragráðu í miðaldasögu við Háskólann í Lundi í Svíþjóð árið 1951. Hún lauk síðan fil.lic.-prófi við sama skóla árið 1958 og loks doktorsprófi 1964. Ólafía var ráðin lektor við Kaupmannahafnarháskóla árið 1963 og gegndi hún því starfi til starfsloka. Eiginmaður Ólafíu er Bent Fuglede stærðfræðingur og eignuðust þau soninn Einar árið 1966.

Dr. Ólafía Einarsdóttir var sæmd heiðursdoktorsnafnbót við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands árið 2009. Eftir hana liggur fjöldi ritverka og greina um tímatalsfræði og sögu kvenna á miðöldum. Frá árinu 2006 hefur Fornleifafræðingafélagið gefið út tímaritið Ólafíu, sem nefnt er eftir henni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »