Ekkert lögbann án úrskurðar héraðsdóms

Þingmenn Pírata telja gildandi lög ekki tryggja vernd fjölmiðlafrelsis.
Þingmenn Pírata telja gildandi lög ekki tryggja vernd fjölmiðlafrelsis. mbl.is/Eggert

Þingmenn Pírata lögðu fram frumvarp um breytingu á lögum um lögbann á miðlun fjölmiðils á Alþingi í gær. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir lagði frumvarpið fram fyrir flokk sinn, en það snýr að því að ekki verði unnt að leggja lögbann á miðlun fjölmiðla án undangengins úrskúrðar héraðsdóms.

Í greinargerð sem fylgir lagabreytingartillögunni kemur fram að tilgangur frumvarpsins sé að tryggja að ekki verði möguleiki fyrir þann sem lögbannsins krefst að stöðva miðlun fjölmiðils án aðkomu dómstóla. Samkvæmt frumvarpinu mun gerðarbeiðandi í slíkum málum þurfa að höfða mál gegn þeim sem þeir telja að hafi brotið eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti þeirra með athöfnum sínum.

Fjölmiðlafrelsi einn hornsteina lýðveldisins

„Frumvarp þetta er lagt fram til þess að tryggja megi fjölmiðlafrelsi, einn hornsteina lýðræðisins, með betri hætti en samkvæmt gildandi lögum. Fjölmiðlafrelsi er enda mikilvægur þáttur tjáningarfrelsis sem verndað er með 73. gr. stjórnarskrárinnar, 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 19. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem og annarra alþjóðlegra samninga sem Ísland er aðili að,“ segir í greinargerðinni.

Þar segir einnig að það sé mat flutningsmanna að gildandi lög tryggi ekki vernd fjölmiðlafrelsis, og þar með tjáningarfrelsis, með fullnægjandi hætti. Sýslumaður hafi vald til þess að samþykkja lögbannskröfu á umfjöllun fjölmiðla berist honum slík beiðni og telji kröfuna uppfylla formskilyrði laganna.

„Ágallar laganna komu glöggt í ljós í kjölfar þess að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu samþykkti lögbannskröfu félagsins Glitnis HoldCo á hendur fjölmiðilsins Stundarinnar 16. október 2017 vegna umfjöllunar Stundarinnar um fjármálagjörninga Bjarna Benediktssonar í aðdraganda bankahrunsins 2008.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert