„Vissi að þetta gæti gerst“

Birta Björk var meðvituð um að hún gæti orðið dúx, …
Birta Björk var meðvituð um að hún gæti orðið dúx, enda hefur henni alltaf gengið vel í skóla. Mynd/Jóhannes Long

„Ég hafði aldrei pælt í þessu fyrr en vinkona mín nefndi það við mig fyrir ári hvort ég ætlaði að verða dúx, því mér hefur alltaf gengið vel í skóla. Þá kannski varð það smá markmið. Ég hef samt alltaf reynt að standa mig sem best. Ég bjóst ekkert endilega við þessu en vissi að þetta gæti gerst.“

Þetta segir Birta Björk Andradóttir, dúx Fjölbrautaskólans í Breiðholti, en hún útskrifaðist sem stúdent í gær af náttúruvísindabraut skólans með 9,08 í meðaleinkunn. Hún segir lykilinn að góðum námsárangri einfaldlega að mæta í tíma, fylgjast með og vinna vinnuna.

Alls útskrifuðust 116 nemendur í gær við hátíðlega athöfn í Hörpu, 62 með stúdentspróf, 25 rafvirkjar, 16 sjúkraliðar, 15 húsasmiðir og 4 af snyrtibraut.

Birta hóf framhaldsskólagöngu sína í Kvennaskólanum í Reykjavík þar sem hún stundaði nám í eitt ár. Þaðan lá leiðin til Bandaríkjanna þar sem hún bjó með fjölskyldunni í eitt ár og fékk að kynnast lífinu í high school. Síðasta eina og hálfa árið hefur hún svo stundað nám við FB. Birta segir að mörgu leyti ólíkt að vera í bandarískum framhaldsskóla og íslenskum, en bandaríska kerfið líkist þó fjölbrautakerfinu að einhverju leyti.

Útskriftarhópur FB í Hörpu í gær.
Útskriftarhópur FB í Hörpu í gær. Mynd/Jóhannes Long

Birta fór í haust til Grikklands á vegum skólans þar sem hún tók þátt í Erasmus verkefni um innflytjendur og hælisleitendur. „Við vorum þarna frá nokkrum löndum að fjalla um innflytjendamál. Það var einmitt hópur af flóttamönnum sem kom og var með okkur og þau deildu reynslu sinni. Þetta voru krakkar frá Íran og Afganistan sem höfðu ferðast ein, án foreldra, og voru í flóttamannabúðum í Grikklandi,“ segir Birna sem lærði mikið af þessari reynslu. „Það var líka gaman hvað hópurinn var samrýndur og ég kynntist fullt af fólki frá öðrum löndum.“

Hvað framtíðina varðar stefnir Birta á að vinna eftir áramót og fara í háskóla næsta haust. Henni þykir líklegast að verkfræði verði fyrir valinu, en er þó ekki búin að ákveða hvort hún ætlar í Háskóla Íslands eða Háskólann í Reykjavík.

Áhugasvið hennar liggur í raungreinum, þá sérstaklega stærðfræði, enda fékk hún verðlaun fyrir bestan árangur á stúdentsprófi í raungreinum og stærðfræði, auk verðlauna frá Soroptimistaklúbbi Hóla og Fella.

Birta fagnaði áfanganum í með því að halda smá veislu fyrir fjölskyldu og vini í gær. Hún er lítið að stressa sig á því þó jólaundirbúningurinn hafi setið á hakanum vegna prófa í desember. Það eru ekki veraldlegir hlutir sem skipta hana máli um jólin. „Fjölskyldan mín býr í útlöndum og líka besta vinkona mín, ég legg meiri áherslu á hitta þau aftur að vera með þeim heldur en jólin sjálf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert