Endurskoðar lög um fjármál flokkanna

Þetta var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.
Þetta var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. mbl.is/​Hari

Skipun nefndar, um endurskoðun laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Markmiðið með nefndinni er meðal annars að leita leiða til að tryggja fjármögnun, sjálfstæði og lýðræðisleg vinnubrögð og gagnsæi í starfsemi allra starfandi stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi, óháð stærð þeirra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Gefst tækifæri til að jafna aðstöðu flokkanna

Þar segir enn fremur, að töluverðum hluta af framlögum ríkisins til stjórnmálaflokka sé ráðstafað í kostnaðarliði sem séu óháðir fylgi eða fjölda þingmanna. Þar megi nefna skrifstofurekstur, félagsheimili, félagatal, lágmarksstarfsmannahald og lögbundna skyldu til bókhalds og endurskoðunar á ársreikningum sem skila beri ár hvert til Ríkisendurskoðunar. Með fjölgun flokka á Alþingi hafi hlutfall fjármuna sem varið sé í rekstur á grunnstoðum flokkanna hækkað svo um munar en á móti hafa framlög lækkað. 

„Með endurskoðun laganna gefst tækifæri til að jafna aðstöðu flokkanna að þessu leyti, óháð stærð þeirra, sem felur sér í lagi í sér aukinn stuðning við smærri flokka.

Gert er ráð fyrir að í nefndinni eigi sæti fulltrúar allra stjórnmálasamtaka, sem sæti eiga á Alþingi, auk fulltrúa forsætisráðuneytisins sem stýrir nefndinni, fulltrúa dómsmálaráðuneytisins, en lög um fjármál stjórnarmálasamtaka heyra samkvæmt forsetaúrskurði undir það ráðuneyti, og fulltrúi Ríkisendurskoðunar,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert