„Lágkúruleg“ umræða á lokuðum fundi

Jón Steinar Gunnlaugsson ávarpar gesti í útgáfuhófi bókar sinnar, Með …
Jón Steinar Gunnlaugsson ávarpar gesti í útgáfuhófi bókar sinnar, Með lognið í fangið. mbl.is/Ófeigur

Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi dómari við Hæstarétt, er ósáttur við að Lögmannafélag Íslands hafi ekki orðið við beiðni hans um að það héldi fund þar sem hann myndi gera grein fyrir nýrri bók sinni. Hún fjallar um dómaframkvæmd Hæstaréttar eftir bankahrunið.

Tilefni beiðninnar er ummæli sem formaður Lögmannafélagsins hafði uppi um innihald bókarinnar á aðalfundi Dómarafélags Íslands en þar er venjan að formaður Lögmannafélagsins flytji ávarp.

„Það voru sagðar af því fréttir að hann hefði vikið að mér í ræðu sinni fyrir dómurum á frekar niðrandi hátt og sagt að ég færi með rangt mál um eitthvert málefni í bók minni,“ segir Jón Steinar.

Í framhaldinu sendi hann Lögmannafélagi Íslands bréf þar sem hann óskaði eftir því að haldinn yrði fundur á vegum þess þar sem hann fengi að gera grein fyrir bókinni. Jafnvel mætti bjóða Dómarafélagi Íslands aðild að honum og mögulega mætti hafa fundinn opinn fyrir fjölmiðla og almenning.

Jón Steinar gagnrýnir dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands í bókinni.
Jón Steinar gagnrýnir dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands í bókinni. mbl.is/Golli

Óttist að verða undir í deilum

Svar Lögmannafélagsins var á þann veg að það taldi ekki tilefni til að boða til sérstaks fundar um efni bókarinnar.

Jón Steinar segir viðbrögðin ekki koma sér á óvart. „Mín reynsla er sú, hver sem ástæðan er fyrir því, að mér hefur fundist þeir sem vilja andæfa málflutningi mínum um dómskerfið ekki leggja í að tala við mig þannig að á sé hlustað. Ég held að þeir óttist að þeir hafi engan málstað til að gera það og óttist að verða undir í einhverjum deilum við mig á slíkum fundi.“

Hann bætir við að það sé „frekar lágkúrulegt“ að talað sé um hann á lokuðum fundi „til þess að skora þar einhver stig“ án þess að hann geti svarað fyrir sig og nefnir að það sem formaðurinn taldi hann hafa farið rangt með í bókinni hafi verið útúrsnúningur á efni hennar.

„Það er varla sæmandi Lögmannafélaginu að taka svona á þessu erindi. Ég hélt að það væri ómur liðins tíma að menn myndu bregðast svona við,“ segir Jón Steinar og óskar núna eftir því að einhverjir gefi sig fram til að halda fundinn í stað Lögmannafélagsins. Hann sé maður hinnar frjálsu tjáningar og sé tilbúinn til að mæta hvenær sem er og tala um bókina sína og það sem menn telja athugavert við hana.

Búið að halda fundi um sumt í bókinni

Spurður hvers vegna Lögmannafélag Íslands vildi ekki halda fundinn að ósk Jóns Steinars segir Reimar Pétursson, formaður félagsins, að búið sé að halda fundi um sumt í bókinni. Annað í henni sé þess eðlis að betur fari á því að Jón Steinar haldi fund um það sjálfur ef hann hefur áhuga á því.

„Það kostar að halda fundi og við þurfum að skipuleggja starfið. Það er margt í gangi og hvorki hann né nokkur annar getur gert einhverjar kröfur nema að fara eftir reglum sem gilda um það í samþykktunum,“ greinir Reimar frá. 

Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélagsins.
Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélagsins. mbl.is/Styrmir Kári

„Ekkert nýtt af nálinni“

„Ef bókin er lesin sjá menn að þetta er mikið til klippt og skorið úr eldri stúfum sem hann hefur verið að skrifa um þessi efni. Margt af þessu er ekkert nýtt af nálinni, nema að það er framsetning í þessu sem má segja að sé ný af nálinni. Hann verður að velja hvaða framsetningu hann velur sér. Svo er annað þess eðlis að við höfum kannski engan áhuga á því að vera að lyfta því á stall,“ bætir hann við.

Höfundurinn þarf ekki að vera á staðnum

Reimar nefnir einnig að einhvers staðar hljóti að hafa verið fjallað um bókina, meðal annars á kaffistofum lögmannastofa, þar sem ýmislegt hafi vafalítið verið sagt sem höfundurinn kynni að vilja gera athugasemdir við. „Ef menn gefa út bók hlýtur það að vera gert með það í huga að það sé fjallað um efnið. Hugmyndin með útgáfu bókarinnar er væntanlega ekki sú að það sé aldrei talað um efnið nema höfundurinn sé á staðnum. Það eru þá einhvers konar þöggunartilburðir hjá honum að vilja ekki leyfa mönnum að fjalla um það sem hann er að gefa út. Hann getur ekki búist við því að allir hampi efni bókarinnar,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert