„Þetta voru æðislegar fréttir“

109 útskrifuðust frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla í gær.
109 útskrifuðust frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla í gær.

„Ég var þokkalega sátt með þetta“ segir Íris Ösp Sigurðardóttir, dúx Fjölbrautaskólans við Ármúla, sem útskrifaðist í gær af nýsköpunar- og listabraut með viðbót til stúdentsprófs með einkunnina 9,44.

Íris segist ekki hafa búist við því að hún yrði dúx, þótt hún hafi reynt að stefna að því. „Þetta var dálítill draumur. Ég var að vonast til þess en ég átti ekkert sérstaklega von á því. Þetta voru æðislegar fréttir,“ segir hún glöð í bragði.

109 nemendur útskrifuðust frá Fjölbrautaskólanum í Ármúla í gær af 10 námsbrautum; 83 stúdentar 4 læknaritarar, 10 heilsunuddarar, 4 sjúkraliðar og 8 úr framhaldsnámi sjúkraliða. Þá útskrifuðust 6 nemendur af nýsköpunar- og listnámsbraut.

Íris Ösp var að vonum sátt með árangurinn.
Íris Ösp var að vonum sátt með árangurinn.

Íris segir lykilinn að góðum námsárangri vera bæði metnaður og góð mæting. „Upplýsingarnar festast miklu betur í hausnum á mér með því að mæta í tíma heldur en að lesa þær sjálf,“ segir Íris, en hún hefur alltaf átt auðvelt með að læra.

Hún er listhneigð og listgreinar höfða mikið til hennar. Áhugi á kvikmyndagerð er mikill, en hún málar einnig og tekur ljósmyndir. Næst á dagskrá hjá henni er að reyna að kynnast kvikmyndabransanum á Íslandi. „Ég ætla að reyna að koma mér inn í kvikmyndabransann. Á listabrautinni hefur fókusinn verið á kvikmyndagerð, þannig ég ætla að reyna að koma mér þangað og fá tilfinningu fyrir því.“

Íris er ekki búin að ákveða hvort hún hyggur á frekara nám í kvikmyndagerð, en hana langar að kynnast bransanum fyrst og afla sér reynslu áður en hún tekur ákvörðun um slíkt.

Aðspurð segist hún að mestu leyti vera búin með jólaundirbúninginn, nema kannski að laga aðeins til heima. „Annars er ég ekki í neinu stressi, sem betur fer,“ segir dúxinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert