„Ég harka alltaf bara af mér“

Fríða Pálmars Lárusdóttir Snædal, dúx Menntaskólans á Egilsstöðum.
Fríða Pálmars Lárusdóttir Snædal, dúx Menntaskólans á Egilsstöðum. Mynd/Magnús Þórhallsson

„Ég geri alltaf mitt besta, alveg sama þó að áfanginn sé kannski alls ekki eitthvað sem ég hafi áhuga á, ég harka alltaf bara af mér og einbeiti mér að því að standa mig vel.“ Þetta segir hin 19 ára gamla Fríða Pálmars Lárusdóttir Snædal, dúx Menntaskólans á Egilsstöðum. Hún útskrifaðist með meðaleinkunnina 9,72 og hlaut sérstök verðlaun fyrir góðan árangur í íslensku og erlendum tungumálum.

Svokallað spannakerfi er í Menntaskólanum á Egilsstöðum – ein önn skiptir í tvær spannir, áfangarnir eru styttri en í öðrum framhaldsskólum og venjulega eru nemendur einungis í þremur áföngum í einu.

„Það hentaði mér mjög vel, að geta tekið færri áfanga í einu og einbeitt mér enn betur að hverjum og einum,“ segir Fríða, sem tók þátt í félagslífinu í skólanum og var virk í starfi Bindindismannafélags ME, auk þess sem hún hefur verið formaður Hinseginfélags ME, sem var stofnað fyrir rúmu ári síðan.

Tungumálin heilla

Fríða stefnir mögulega á tungumálanám á háskólastigi næsta haust, en segir þó að framtíðin sé að mestu leyti óráðin. „Spænska og enska heilla sérstaklega, ég var á málabraut þannig að þetta er svona í sérstöku uppáhaldi. Ég er að fara að vinna núna og ég veit ekki í hvaða skóla ég stefni eða hvort ég er á leiðinni eitthvað út,“ segir Fríða.

Alls útskrifuðust 32 stúdentar frá Menntaskólanum á Egilsstöðum við hátíðlega athöfn í Egilsstaðakirkju þann 17. desember. Níu útskrifuðust af náttúrufræðibraut, 21 af félagsfræðibraut, einn af málabraut og einn af mála- og náttúrufræðibraut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert