Dúxaði og stefnir á læknisfræði

Selma Rún Bjarnadóttir, dúx Flensborgarskólans, ásamt skólameistaranum Magnúsi Þorkelssyni.
Selma Rún Bjarnadóttir, dúx Flensborgarskólans, ásamt skólameistaranum Magnúsi Þorkelssyni. Ljósmynd/Hildigunnur Guðlaugsdóttir

„Ég var mjög glöð með þetta allt saman. Ég  var ekki alveg að búast við þessu af því ég er búin að vera að æfa svo mikið með skólanum.“ Þetta segir Selma Rún Bjarnadóttir, dúx Flensborgarskólans. Hún útskrifaðist af náttúrufræðibraut skólans með meðaleinkunnina 9,37 þann 21. desember síðastliðinn.

Selma Rún útskrifaðist úr Víðistaðaskóla í Hafnarfirði árið 2014 og hefur æft ballett í Listdansskóla Íslands samhliða námi sínu við Flensborgarskólann. „Ég hafði dúxað í grunnskóla þannig nokkrir sem þekktu mig voru að  búast við því en ég var ekkert rosalega mikið að hugsa um það.“

Að stúdentsprófi sínu loknu stefnir hún að læknisfræðinámi við Háskóla Íslands. „Þessa næstu önn verð á námskeiði til að undirbúa mig fyrir inntökuprófið núna í vor.“

Auk þess verður hún í hálfu námi við Listdansskólann og fer með honum til Barcelona í vinnustofu við listaháskólann þar í borg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert