Frábært samstarf Heru og Peters Jacksons

Hera Hilmarsdóttir leikkona.
Hera Hilmarsdóttir leikkona. Haraldur Jónasson / Hari

„Fyrir svona verkefni getur maður yfirleitt ekki lesið handritið áður en maður sendir inn prufu þannig að í raun var ég ekki alveg meðvituð um hvað þetta væri né tengja almennilega að Peter Jackson væri manneskjan á bak við það. Ég hafði frétt að þau væru búin að leita að manneskju í hlutverkið í heilt ár og bjóst því ekki endilega við að heyra meira frá þeim. Svo ég sendi prufuna án þess að hugsa neitt sérstaklega út í þetta. Síðan las ég handritið og hugsaði með mér, já, þetta er nú reyndar mjög flott saga og flott persóna, og þetta er Peter Jackson. Það fóru að renna á mig tvær grímur og ég fór að átta mig á hvað þetta var raunverulega stórt. Peter Jackson hefur ekki gert verkefni í líkingu við þetta síðan hann gerði Lord of the Rings og Hobbitann – þetta gætu orðið nokkrar kvikmyndir ef vel gengur, en byrjum á einni,“ segir Hera Hilmarsdóttir í viðtali sem birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Fyrr á þessu ári bárust tíðindi af því að Hera myndi leika í næstu stórmynd Peters Jacksons, Mortal Engines, en Jackson er maðurinn á bak við Lord of the Rings, Hobbitann og fleiri stórvirki og er nú framleiðandi Mortal Engines, sem verður jólamyndin á næsta ári með Heru í aðalhlutverki.

Í viðtalinu talar Hera um tökurnar úti, samstarfið við Peter Jackson og fjölskyldu hans úti á Nýja-Sjálandi þar sem myndin var tekin upp í risastúdíói sem Jackson á og notaði til að gera m.a. Lord of the Rings og King Kong. 

Einstakar og persónulegar viðtökur

Hvernig er Peter Jackson í eigin persónu? Nú er hann í guðatölu hjá mörgum.

„Já, hann er í guðatölu og má líka bara alveg vera það. Hann er mjög ekta og eins og margir hafa bent á í tengslum við metoo-byltinguna hefur nákvæmlega ekkert komið fram um hann heldur er hann þvert á móti algjörlega hinum megin ef það er til einhver slík lína, hefur hjálp- að að bera kennsl á slík atvik, og er bara yndislegur. Konan hans, Fran Walsh, starfar með honum í öllu því sem hann gerir, þau eru mjög gott teymi og dóttir þeirra vinnur líka í mynd- unum og er yndisleg líka. Þau tóku mér algjörlega opnum örmum og maður varð einn af fjölskyldunni. Um síðustu páska fórum við öll saman upp í sveitahúsið þeirra, vorum saman þar í páskaeggjaleit og í fjölskyldukósíheitum bara, sem er alls ekki sjálfsagt. Þótt það sé oftast hugsað vel um mann í tökum þá voru þetta alveg einstakar og persónulegar viðtökur.

Hera Hilmarsdóttir í hlutverki sínu í Mortal Engines.
Hera Hilmarsdóttir í hlutverki sínu í Mortal Engines.

Ég fann mikinn stuðning á setti og strax á fyrsta fundi þegar við ræddum karakterinn og útlit hennar fann ég að þau ætluðu algjörlega að taka mark á mínu innleggi og hvað mér fannst. Karakter minn er til dæmis með stórt ör í andlitinu og Peter Jackson sagði strax við mig að ég fengi ljósmyndir af mér sem væri búið að undirbúa í myndvinnslu, með réttum hárlit og búningi, og ég fengi að teikna hugmyndir að örum eins og mér fyndist að þau ættu að vera.

Maður fann því strax gagnkvæma virðingu og jafningjabrag. En auðvitað koma allir fram við Jackson í samræmi við það sem hann hefur gert. Hann á þetta risastúdíó á Nýja-Sjálandi, Stone Street Studios, er með mörg hundruð, jafnvel þúsund manns í vinnu. Allt er undir honum komið að stórvirki hans verði að veruleika.

En hann er líka jarðbundinn og það er ekki að sjá utan á honum að hann sé í þessari stöðu, alltaf í sömu fötunum og fáránlega hversdagslegur. Hann er eiginlega hobbiti, er oft bara berfættur í vinnunni og er bara alveg sama, honum finnst bara gaman að búa til bíó!“

Konurnar sem hafa mikið að segja

Hera segir að það megi heldur ekki gleyma Fran Walsh og Philippu Boyens samstarfsmanni þeirra, konunum sem skrifa með honum og framleiða, enda eru þær alltaf á setti og ekkert verður til án þeirra heldur. Jackson skrifaði og framleiddi Lord of the Rings með þeim, sem og Hobbitann og nær allar sínar myndir, sérstaklega með Fran konunni sinni en þau hafa skrifað flest saman, frá myndum eins og Meet the Feebles og Heavenly Creatures fram að Mortal Engines.

„Verkefnið og upplifunin var öll miklu jákvæðari en ég hélt. Ég bjó mig undir að þetta yrði allt frekar pólitískt og erfiðara vinnuumhverfi en það reyndist. Ég fengi ekki að hafa mikið að segja um karakter minn og fengi endalaust að heyra, eins og oft er í verkefnum sem tengjast Bandaríkjunum á einhvern hátt, að ég ætti að vera sætari, mjórri og eitthvað þannig. Það var ekkert svoleiðis.

Ég meira að segja fór að hugsa hvað ef þetta yrðu margar myndir, kannski þrjár myndir ef þetta virkaði allt saman, þá værum við að tala um sex ár mögulega. Það er mikil skuldbinding og það er margt sem kemur upp í hugann. Hvað ef ég vildi eignast barn á þessum tíma? Svona verður að hugsa því þú ert að skrifa undir eitthvað sem gæti stjórnað lífsmynstri þínu í langan tíma. En ég held ég hafi skrifað undir samning með tillitssamasta fólki í þessum bransa sem hægt er, þau eru yndisleg. Ég er að fara í smá tökur í viðbót fyrir myndina í febrúar og ég er mjög spennt að hitta þau aftur.“

Peter Jackson.
Peter Jackson.

Peter Jackson gefur Heru toppeinkunn 

Sunnudagsblað Morgunblaðsins fékk Peter Jackson til að segja frá því hverjir væru styrkleikar Heru. Um það hafði hann þetta að segja:

„Það er ákveðin ró yfir Heru sem er ákaflega sannfærandi. Hún fangar augu manns á hvíta tjaldinu og maður getur ekki hætt að horfa á hana.

Sem leikari veit Hera upp á hár hvernig á að skapa leikflutning. Hún er alltaf sönn, alltaf ekta og fyrst og fremst er hún ákaflega hugrökk. Það er enginn efi í mínum huga að hennar bíði glæstur frami.

Það vill líka svo heppilega til að hún er einn yndislegasti og mest gefandi leikari sem ég hef nokkurn tímann notið þess heiðurs að vinna með.

Við trúðum því varla þegar Hera samþykkti að leika Hester Shaw og erum afar lukkuleg að hafa hana með okkur.“

Nýr taktur

Hera hefur þurft að breyta aðeins um takt eftir að fréttir bárust af því að hún væri með hlutverk í Mortal Engines.

„Ég ákvað að bæta í umboðsmannateymið mitt í Los Angeles í september en ég hef verið að bíða með það í nokkur ár, mér hefur fundist þægilegra að hafa teymið í kringum mig ekki of stórt. En eftir að Mortal Engines komst í fréttirnar streymdu alls konar boð inn, fólk var tilbúið að fljúga til Íslands á Andaðu-leiksýninguna sem ég var að gera hér heima, og svo til Nýja Sjálands í tökur og hitta mig þar, sem var frábært en ég ákvað að bíða þar til þetta hefði róast aðeins niður. Á endanum veitti þó ekki af aukahöndum svo að í millitíðinni tékkuðum við vel á hverjum og einum, sem endaði með því að ég réð þrjá nýja einstaklinga nú í haust. Ég er búin að vera með sömu umboðskonuna í London frá því ég var í skólanum og bætti svo við tveimur „managerum“ í Los Angeles fyrir þremur árum. Núna var ég að bæta við stórri umboðsskrifstofu og þremur nýjum umboðsmönnum þar og þau hafa reynst frábærlega. Svo eru náttúrlega flestir af þeim einnig með aðstoðarmenn. Núna finnst mér oft skrýtið að þegar ég sendi prufur er ég að senda þær á svona ellefu manns. Og þá er ekki meðtalinn lögfræðingurinn sem sér um alla samninga fyrir mig. Þetta er ansi mikill pakki, en pakkinn hefur reynst mér vel í alls konar aðstæðum.“

Út af Mortal get ég núna valið á milli allra stærstu umboðsskrifstofanna, get hitt alla og valið, sem mér fannst svolítið klikkað. Einn daginn var það ekki möguleiki og næsta dag er allt upp á gátt. En það hefur verið frábært.“

VIÐTALIÐ BIRTIST I HEILD Í SUNNUDAGSBLAÐI MORGUNBLAÐSINS. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert