Stefna á að selja þúsundir hjóla á næstu árum

Nýja hjólið sem Lauf framleiðir ber nafnið True Grit og …
Nýja hjólið sem Lauf framleiðir ber nafnið True Grit og er svokallað malarhjól (e. gravel bike). Mynd/Arnold Björnsson

Íslenski hjólaframleiðandinn Lauf kynnti fyrr á þessu ári fyrsta reiðhjólið frá fyrirtækinu sem kom á markað. Nýlega hefur fyrirtækið gert samstarfssamninga við nokkrar hjólaverslunarakeðjur í Bandaríkjunum og fleiri samningar eru á lokametrunum. Vegna aukinnar veltu þar er horft til þess að koma upp starfsstöð sem sér einnig um dreifingu vestanhafs, en hingað til hefur Lauf aðeins selt hjólið í gegnum netsölu.

Áður en hjólið, sem gengur undir nafninu True grit, kom á markað í lok sumars hafði fyrirtækið þróað, hannað og sett á markað nýja tegund af demparagaffli sem notast við fjaðrir í stað hefðbundinna teleskópískra demp­ara. Hjólið er í flokki svokallaðra hágæðahjóla sem eru að sækja í sig veðrið á heimsvísu samhliða auknum hjólaáhuga.

„Ekki langsótt markmið

Benedikt Skúlason, annar stofnenda og framkvæmdastjóri Lauf, segir í samtali við mbl.is að eins og við hafi verið að búast fari bæði framleiðsla og sala rólega af stað, en að þeir hafi engu að síður selt nokkur hundruð hjól. Þá sé salan á hjólagöfflunum talin í þúsundum. Með sölusamningum í Bandaríkjunum segir Benedikt að markmiðið næsta árs sé að komast yfir þúsund sölur og árið þar á eftir að þeir séu farnir að selja hjól í þúsundum.

Frétt mbl.is: Hefja framleiðslu á íslenskum hjólum

„Það er ekki langsótt markmið, en auðvitað mikil vinna,“ segir Benedikt og vísar til þess að markaður fyrir hágæðahjól hafi vaxið mikið undanfarin ár og þá séu malarhjólreiðar (e. gravel) sá markaður innan hjólasölunnar sem stækki hraðast þessi misserin, en True grit er einmitt í þeim flokki.

Starfsmenn Lauf á Eurobike sýningunni fyrr á þessu ári.
Starfsmenn Lauf á Eurobike sýningunni fyrr á þessu ári. Mynd/Lauf

Fljótt að fara upp í hundruð milljóna

Þótt þúsund hjól virki ef til vill ekki stór tala, þá kostar hvert eintak á bilinu 350 til 700 þúsund og því gæti velta með sölu á þúsund hjólum hæglega nálgast hálfan milljarð. „Það að komast með hjólið í sama magn og gafflana í dag þá náum við þessu í stórt fyrirtæki,“ segir Benedikt. Hann tekur fram að salan standi í dag vel undir öllum rekstri fyrirtækisins, en að með aukinni sölu fáist peningar í fjárfestingar við vöxt á lager og meiri þróun.

Eins og fyrr segir var fyrst áformað að selja hjólið eingöngu á netinu, en með því er hægt að sleppa millisöluaðila. Benedikt segir að þeir hafi þó komist að því að smásalar hafi haft mikinn áhuga á að fá hjólin í sölu. Segir hann að hjá hjólakeðjunum í Bandaríkjunum sé mikill áhugi fyrir nýja hjólinu enda séu það „nördarnir“ í faginu og nýja hönnunin hafi vakið mjög mikla athygli í svokölluðum malarhjólreiðum.

Með þessu að sækja inn á almenna markaðinn

„Með þessu erum við að sækja meira inn á almenna markaðinn og það gefur fólki betri möguleika á að prófa hjólin fyrir kaupin,“ segir Benedikt, en ljóst er að það getur skipt miklu máli þegar um alveg nýja hönnun á hjól er að ræða, eins og er upp á teningnum með True grit hjólið og demparagaffalinn sem fylgir því.

Með sölu í verslunum segir Benedikt að það þurfi að selja tvisvar sinnum fleiri hjól til að ná sama hagnaði. Aftur á móti hafi sala þar þegar verið sterk og þeir telji þetta því vænlega leið. Hafa þeir Benedikt og aðrir starfsmenn fyrirtækisins ferðast á fullu um Bandaríkin undanfarnar vikur og mánuði og unnið að kynningu og samningum við hjólakeðjur víða um Bandaríkin og segir Benedikt að sú vinna gangi mjög vel. Þá eru þeir einnig með tvo umboðsmenn í suðurríkjum Bandaríkjanna sem þekki bransann úti vel.

Lauf grit hjólið er búið sérstökum demparagaffal sem Lauf hannaði …
Lauf grit hjólið er búið sérstökum demparagaffal sem Lauf hannaði og þróaði, en hann er búinn fjaðurgaffal í stað hefðbundinna teleskópískra demp­ara. Fyrirtækið ætlar sér stóra hluti til framtíðar í hjólageiranum. Ljósmynd/Arnold Björnsson

Þróun á næsta stóra verkefni þegar hafin

Nú þegar eru komnir samningar við 10 söluaðila á um einum mánuði og segir Benedikt að 5 aðrir samningar séu á lokametrunum. Þeir áformi að landa um 40-50 samningum við söluaðila fyrir seinni part næsta árs og að þeir séu bjartsýnir á það miðað við árangurinn frá því í nóvember. Þá segir

Spurður um framhaldið segir Benedikt að samhliða þessu stökki með hjólin inn á smásölumarkaðinn í Bandaríkjunum séu þeir að horfa til þess að það þurfi að fjölga starfsmönnum og er vinna við það byrjuð. Þá séu þeir byrjaðir þróunarvinnu fyrir næsta stóra verkefni. Segist hann ekki vilja tjá sig mikið nánar um það að svo stöddu, en staðfestir að það sé líka reiðhjól í heild sinni, en ekki bara einstakur hjólaíhlutur.

Lauf stílar inn á svokallaðan gravel-markað, en það er markaður …
Lauf stílar inn á svokallaðan gravel-markað, en það er markaður fyrir hjól sem hægt er að nota á malarvegum og slóðum samhliða almennri götuhjólanotkun. Ljósmynd/Arnold Björnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina