„Virkaði sem friðsælt sam­fé­lag“

Hjónin Eiríkur Hilmarsson og Aðalheiður Héðinsdóttir.
Hjónin Eiríkur Hilmarsson og Aðalheiður Héðinsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Fátt er meira talað um í kaffi­heim­in­um nú en kaffið frá Búrma. Það hef­ur vakið óvænta at­hygli fyr­ir gæði og kom vel út í smökk­un hjá helstu kaffisér­fræðing­um heims. Þetta þætti varla tíðind­um sæta nema fyr­ir þær sak­ir að eft­ir að kaffi­bænd­ur fengu aðstoð við að bæta rækt­un­ina í tengsl­um við þró­un­ar­verk­efnið USAID sem hófst árið 2013 hafa orðið stór­stíg­ar fram­far­ir á ör­skömm­um tíma.

Aðal­heiður Héðins­dótt­ir, eig­andi Kaffitárs, fór í æv­in­týra­lega ferð í Shan- og Mandalay-hérað sem nær yfir mið- og suður­hluta Búrma í mars að kynna sér kaffi­rækt­un, hitta bænd­ur og kaupa af þeim kaffi, milliliðalaust. Kaffi­ráðgjafa­fyr­ir­tæki bauð henni ásamt nokkr­um öðrum til Búrma og var eig­inmaður henn­ar einnig með í för.

Búrma er stærsta ríki á meg­in­landi Suðaust­ur-Asíu. Þau hjón­in ferðuðust langt frá átaka­svæðum í land­inu eða Rakín-héraði þar sem rohingja-mús­lim­ar hafa sætt of­sókn­um af hálfu búrmíska hers­ins og fleiri þúsund manns hafa verið myrt. Yfir sex hundruð þúsund rohingj­ar hafa flúið yfir landa­mær­in til Bangla­dess og lýsa morðum, nauðgun­um og of­beldi sem þeir hafa orðið fyr­ir. Aung San Suu Kyi, leiðtogi Búrma og hand­hafi friðar­verðlauna Nó­bels, hef­ur sætt mik­illi gagn­rýni fyr­ir að stöðva ekki aðgerðir stjórn­ar­hers­ins. 

„Þetta virkaði sem friðsælt sam­fé­lag“

„Þetta virkaði sem friðsælt sam­fé­lag og mik­il virðing bor­in fyr­ir kon­um og fjöl­skyld­um. En því miður er herinn enn við völd að hluta,“ seg­ir Aðal­heiður. Hún seg­ir að þrátt fyr­ir að þau hafi verið fjarri átök­un­um voru íbú­ar Búrma ekki sér­stak­lega ræðnir við Vest­ur­landa­búa um aðför hers­ins gegn rohingj­um. „Okk­ur fannst þau vera aðeins að af­saka Aung San Suu Kyi. Þau segja hana ekki ráða yfir hern­um,“ seg­ir Aðal­heiður.

Íbúar Búrma sögðu jafn­framt stöðuna viðkvæma og telja að Suu Kyi verði að velja gaum­gæfi­lega bar­átt­una sem hún fer í og virðist hún ekki standa með rohingj­um. Þeim finnst mús­lim­ar ekki vera hluti af þjóðinni held­ur ann­ars flokks þjóð en flest­ir eru búdda­trú­ar.  

Ljósmynd/Aðsend

„Það sem ég hef lært á að því að þvæl­ast um í þró­un­ar­lönd­um í 20- 30 ár að menning og samfélög hafa önnur gildi og oftast framandi okkur, einnig verður maður verður að setja sig í spor fólks­ins í land­inu,“ seg­ir Aðal­heiður en ít­rek­ar að hún for­dæm­ir morðin og út­skúf­un­ina sem rohingj­ar sæta.

Hún hef­ur ferðast víða um heim, einkum til Suður-Am­er­íku, til að hitta bænd­ur og kaupa af þeim kaffi. Frá fyrstu ferðalög­um sín­um til þró­un­ar­landa hafi margt breyst til batnaðar. Sveita­bæ­ir hafi orðið tækni­vædd­ari, raf­magn verið leitt inn á bæ­ina, vatn hreinsað svo fátt eitt sé nefnt. „Fyr­ir 30 árum var það víða viðtek­in venja að börn unnu á ökr­un­um með for­eldr­um sín­um, þarna voru ekki skól­ar og börn unnu með foreldrum sínum eins og var hér á landi til sveita. Nú eru víðast hvar leikskólar og skólar sem börnin ganga í á meðan foreldrarnir vinna,“ seg­ir Aðal­heiður.

Fagurrauð kaffiber.
Fagurrauð kaffiber. Ljósmynd/Aðsend

Hún nefn­ir sem dæmi að búg­arður bónd­ans í Níg­arag­va sem hún kaup­ir alltaf kaffið sitt af sé ekki sá sami og þegar hún kom fyrst fyr­ir 22 árum. „All­ur aðbúnaður er orðinn betri.  Við meg­um alls ekki meta fólk og samfélög með okkar gleraugum. Reynum að skilja og við sem erum í viðskiptum getum bent á hvað það er sem skiptir okkur og okkar viðskiptavini máli,“ seg­ir Aðal­heiður og bend­ir á að á sama tíma sé þetta öf­ug­snúið því Vest­ur­landa­bú­ar vilja ekki borga mörgum sinn­um hærra verð fyr­ir kaffið sem þeir kaupa úti í búð sem væri raunin ef sömu lífsgæði væru í þróunarlöndum og hjá okkur.

Ótal tæki­færi í Búrma    

Kaffi hef­ur verið ræktað í Búrma í 100 ár á slétt­um í um 1.400 metr­um yfir sjáv­ar­máli. Kaffið er ræktað á ein­fald­an og nátt­úru­leg­an hátt, hvorki vél­ar né áburður er notað. Ber­in eru hand­tínd af trján­um og baun­irn­ar inni í ber­inu eru þurrkaðar strax á sér­stök­um þurrk­grind­um. Áður en USAID fór að vinna með bænd­un­um og leggja áherslu á kaffi­rækt­un var eng­in áhersla á gæði. Ber­in voru seld óflokkuð til frek­ari úr­vinnslu til Kína og bænd­ur fengu lítið fyr­ir vör­una. Þess má geta að bænd­ur á þessu svæði drekka ekki kaffi en drekka þeim mun meira te.

Kona að tína kaffiber af kostgæfni.
Kona að tína kaffiber af kostgæfni. Ljósmynd/Aðsend

„Mér fannst svo magnað að sjá hvað er hægt að gera mikið til að bæta gæðin án mik­ils til­kostnaðar og meiri ágóði renn­ur beint til bænd­anna sjálfra í stað milliliðar,“ seg­ir Aðal­heiður. Bænd­un­um var kennt að tína bara rauðu ber­in en ekki grænu af trénu. Á þurrk­grind­un­um er kaff­inu snúið eins og heyi. Áhersla er lögð á að hver og ein fjöl­skylda kem­ur með sín ber og fjöldi kílóa er skráður niður, en fer ekki í eina hít. Hærra verð fæst fyr­ir kaffið ef það er gott sem skilaði sér beint til bónd­ans. Með þess­um hætti er hægt að kaupa kaffi beint af bónda.

Ótal tæki­færi liggja í Búrma og enn er margt sem hægt er að bæta, til dæm­is hef­ur bænd­um ekki enn verið kennt að klippa til kaffi­trén til að fá meiri upp­skeru svo dæmi séu tek­in. Þegar verk­efn­inu var fyrst hleypt af stokk­un­um voru örfá samfélög bænd­a með í verkefninu en í ár voru þau helmingi fleiri því það spurðist hratt út hversu vel það gekk og á hvaða verði kaffið seldist.

Kaffiberin eru víða þurrkuð úti.
Kaffiberin eru víða þurrkuð úti. Ljósmynd/Aðsend

Gest­risið og stolt fólk 

Íbúar í Búrma eru ákaf­lega gest­risn­ir og fengu þau höfðing­leg­ar mót­tök­ur hvert sem þau fóru. Heim­ili fólks eru snyrti­leg og alls staðar eru plast­dúk­ar á gólf­inu og fólk sit­ur á hækj­um sér við lág borð. Aðal­heiður viður­kenn­ir að þau hafi oft orðið stirð á að sitja lengi í slíkri stöðu.  

„Fólkið er for­vitið að vita hvað þér finnst um kaffið því fólkið drekk­ur það ekki. Hálft í hvoru trú­ir það því ekki að það sé gott. Það var virki­lega gam­an að tala beint við fólkið sem hafði sjálft tínt ber­in. Ég segi alltaf við alla bænd­ur sem ég hitti að þeir eigi að drekka kaffið sitt svo þeir viti hvað þeir eru með hönd­un­um,“ seg­ir Aðal­heiður en ekki fylg­ir sög­unni hvort bænd­urn­ir hafi farið að ráðum henn­ar.

„Fólkið var al­veg ynd­is­legt, þau bjuggu yfir stóískri ró en eru alls ekki und­ir­gef­in eins og maður sér stund­um í Mið-Am­er­íku. Þau eru langt frá því að vera ágeng eins og Kín­verj­ar eru stundum. Þetta er stolt fólk og vel klætt í hrein­um og fal­leg­um föt­um. Þarna ganga all­ir um í pils­um, bæði karl­ar og kon­ur. Það fara all­ir alltaf úr skón­um á heim­il­un­um,“ seg­ir Aðal­heiður.

Búrma komið á kaffi­kortið

„Til að landið geti orðið sam­keppn­is­hæft þarf að styrkja innviðina. Á næst­unni verður reynt að setja upp kaffivinnslu­stöðvar nær sveit­un­um og þá þarf ekki að flytja kaffið um langan veg sem þýðir lægri framleiðslukostnað fyrir bændur og þar af leiðandi verður meira eft­ir hjá bænd­un­um. Kaffið er komið á kortið og bændur í Búrma gæti eins og önn­ur lönd lifað af kaffi­rækt,“ seg­ir Aðal­heiður. Eft­ir heim­sókn­ina keypti hún einn gám af kaffi sem end­ist eitt­hvað fram á næsta ár.

Hátíðakaffið frá Kaffitári þetta árið er frá Búrma og 100 krónur af hverjum pakka renna til hjálpastarfs Rauða krossins og aðstoð til rohingja. Spurð hvort hún hygg­ist kaupa ann­an gám velt­ur það á viðtök­um Íslend­inga. Sjálf vildi hún glöð geta keypt gott kaffi milliliðalaust frá Búrma svo bænd­ur fengju stærri skerf í sinn hlut. 

Allt kaffið er merkt eftir kúnstarinnar reglum svo ágóðinn skilar …
Allt kaffið er merkt eftir kúnstarinnar reglum svo ágóðinn skilar sér beint til bónda. Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert