Afkastamikill dagur í Blóðbankanum

Fjöldi fólks brást við beiðni Blóðbankans um að gefa blóð …
Fjöldi fólks brást við beiðni Blóðbankans um að gefa blóð í dag. mbl.is/Kristín Sif Björgvinsdóttir

Metfjöldi blóðgjafa lagði leið sína í Blóðbankann í dag. Bankinn óskaði eftir blóðgjöfum eftir að alvarlegt rútuslys varð vestan við Kirkjubæjarklaustur um hádegisbil í dag.

„Við sendum ákall til blóðgjafa og höfum fengið metaðsókn í dag,“ segir Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir Blóðbankans, í samtali við mbl.is.

„Mér sýnist að við náum að safna yfir 170 einingum,“ segir hann. Þegar Blóðbankinn var opnaður í morgun voru um 600 einingar til í bankanum, þar af 350 einingar í blóðflokki O, sem nýtast til blóðgjafar í slysinu sem var í dag. Um 450 einingar í blóðflokki O eru nú til í Blóðbankanum.

Mestu óvissunni hefur verið eytt 

Ákveðið var að hafa opið lengur í Blóðbankanum í dag, eða til klukkan 19. Síðustu blóðgjafarnir höfðu gefið blóð þegar klukkan var að nálgast 20 og segir Sveinn að vel hafi gengið og staðan sé góð.  „Mestu óvissunni hefur verið eytt, en auðvitað eru margir sjúklingar enn inni sem að eru annaðhvort í aðgerð eða á gjörgæslu en við fáum þau skilaboð að við séum komin út úr mestu óvissunni.“

Um 50-60 einingar hafa verið sendar á Landspítalann frá Blóðbankanum í dag.

Blóðsöfnun Blóðbankans verður opin á morgun milli klukkan 8 og 19, sem er hefðbundinn tími.

Sveinn segir að dagurinn í dag hafi verið með þeim annasömustu í Blóðbankanum sem hann muni eftir. „Við teljum að við höfum að minnsta kosti í tvígang safnað meira á sólarhring, en þá byrjuðum við líka snemma dags,“ segir Sveinn. Auglýst var eftir blóðgjöfum skömmu eftir hádegi í dag, stuttu eftir að slysið átti sér stað. „Þetta er allavega á topp þremur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert