„Björgunarafrek við erfiðar aðstæður“

44 kín­versk­ir ferðamenn voru í rút­unni auk bíl­stjóra og fara­stjóra. …
44 kín­versk­ir ferðamenn voru í rút­unni auk bíl­stjóra og fara­stjóra. Tólf voru flutt­ir al­var­lega slasaðir á Land­spít­al­ann með tveim­ur þyrl­um Land­helg­is­gæsl­unn­ar. Ljósmynd/Landsbjörg

„Þetta hræðilega hópslys varð um hávetur í mikilli fjarlægð. En það gekk gríðarlega vel að vinna úr stöðunni. Viðbrögð jafnt björgunarmanna sem starfsfólks heilbrigðisstofnana reyndust hnökralaus og mörg hundruð manns mynduðu órofa 300 kílómetra keðju afburðafólks frá slysstað til sjúkrastofu.“

Þetta segir Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Landspítala, aðspurður um hvað hæst beri í huga hans eftir atburði dagsins, þegar rúta fór út af þjóðveginum vestan við Kirkjubæjarklaustur með þeim afleiðingum að einn lést og á fimmta tug slösuðust.

Alls tóku um 300 manns þátt í björgunaraðgerðum og aðhlynningu slasaðra í dag. „Allir hlutaðeigandi eiga þakklæti skilið. Unnið var björgunarafrek við erfiðar aðstæður,“ segir Ólafur.

Um 60 björgunarsveitarmenn tóku þátt í aðgerðunum í dag vegna …
Um 60 björgunarsveitarmenn tóku þátt í aðgerðunum í dag vegna rútuslyssins. Ljósmynd/Landsbjörg

Stærsta slys sem HSu hefur sinnt

Rútuslysið er það stærsta sem Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu) hefur sinnt. 44 kín­versk­ir ferðamenn voru í rút­unni auk bíl­stjóra og fara­rstjóra. Tólf voru flutt­ir al­var­lega slasaðir á Land­spít­al­ann með tveim­ur þyrl­um Land­helg­is­gæsl­unn­ar skömmu eft­ir há­degi og 35 manns voru fluttir á HSu.

„Síðustu sjúklingarnir í þessum 33 manna hópi, sem fóru ekki með þyrlunni, fóru í gegnum bráðamóttökuna á Selfossi og fengu skoðun þar hjá lækni og hjúkrunarfræðingi,“ segir Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, í samtali við mbl.is.

Rauðu viðbúnaðarstigi var lýst yfir á HSu í dag en því hefur nú verið aflétt. Allt heil­brigðis­starfs­fólk stofn­un­ar­inn­ar var kallað á vakt í dag.

„Það eru allir útskrifaðir og farnir fyrir utan einn sem er með brot í mjaðmagrind,“ segir Herdís. Samvinna þeirra sem tóku þátt í aðgerðunum í dag vegna slyssins stendur upp úr að hennar mati. „Þetta gekk algjörlega vonum framar og það sem eftir situr eftir svona dag er fyrst og fremst samvinna viðbragðsaðila okkar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og samskipti okkar við Landspítala. Þetta gekk allt snurðulaust.“

Herdís segir að hlutverk samhæfingarmiðstöðvarinnar í Skógarhlíð hafi einnig skipt sköpum. „Hún hjálpaði okkur með allar þær bjargir sem við þurftum.“

Hún segir einnig að atburðir dagsins sýni samt sem áður nauðsyn þess að fjárveitingar til stofnunarinnar verði auknar. „Það sýnir sig eftir svona dag að efla þarf bráðamóttökuna á Selfossi.“

Rannsókn á tildrögum slyssins heldur áfram á morgun

Tildrög slyssins voru þau að rút­an hafnaði aft­an á fólks­bif­reið með þeim af­leiðing­um að rút­an fór út af. Mik­il hálka var á veg­in­um og bratt niður af hon­um þar sem slysið varð.

Suðurlandsvegi vestan við Hunkubakka var lokað á meðan vinna stóð yfir á slysstað en var opnaður aftur á tíunda tímanum í kvöld.

Samkvæmt upplýsingum frá Odd­i Árna­syni, yf­ir­lög­regluþjóni hjá lög­reglu­stjór­an­um á Suður­landi, verður lögð áhersla á áframhaldandi rann­sókn á til­drög­um slyss­ins á morgun og unnið úr þeim gögn­um sem safnað var í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert