Gullfossar Stranda frumsýndir í Hörpu

Nýtt myndband Tómasar Guðbjartssonar hjartaskurðlæknis og Ólafs Más Björnssonar augnlæknis var frumsýnt í gær á listahátíðinni Norður og niður, sem fer fram í Hörpu um þessar mundir. Í myndbandinu, sem nefnist Gullfossar Stranda, er ferðasaga þeirra rakin um svæðið sem fyrirhuguð Hvalárvirkjun mun hafa áhrif á, en þangað fóru þeir félagar í góðum hópi yfir helgi í sumar.

„Okkur var boðið að taka þátt í þessari hátíð á vegum Sigur Rósar. Þeir hafa náttúrlega verið gríðarlega öflugir í náttúruvernd í mörg ár líkt og fleiri listamenn. Ég sá þá einu sinni spila „unplugged“ við Snæfell og Kárahnjúka, þegar þeir voru að mótmæla þar,“ segir Tómas í samtali við mbl.is.

Tómas Guðbjartsson.
Tómas Guðbjartsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hann segir það hafa verið gríðarlegan heiður að hafa fengið boð um að halda erindi á hátíðinni. „Þar sögðum við frá þessu verkefni okkar um fossana á Ströndum sem hefur staðið yfir í rúmt hálft ár.“

Í september héldu þeir Tómas og Ólafur Már úti fossadagatali á Facebook, þar sem þeir birtu ljósmyndir af einum fossi á svæðinu á dag, en margir fossanna hafa verið landsmönnum óþekktir hingað til og nú fyrir jólin gáfu þeir félagar út sérstakan pakka sem innihélt fossadagatalið útprentað auk bæklings. „1.100 eintök fóru út á fyrstu tveimur dögunum. Svo létum við panta 1.500 í viðbót og það er ekki mikið eftir af þeim svo viðtökurnar hafa verið alveg frábærar.“

Sem flestir myndi sér skoðun með því að sjá hvað er undir

Eins og áður sagði er ferðasaga þeirra um Ófeigs- og Eyvindarfjörð rakin í myndbandinu, en auk þess inniheldur það ýmsar þrívíddarmyndir sem sýna hvernig fossarnir muni líta út eftir virkjun og 33 metra háa uppistöðuveggi lónsins sem mun verða á stærð við Skorradalsvatn.

„Við erum að vonast eftir því að sem flestir taki sér tíma og myndi sér skoðun með því að sjá hvað er undir. Við leggjum áherslu á að þarna séu gullfossar sem myndu bjóða upp á gríðarlega möguleika í ferðaþjónustu með því að bæta samgöngur inn á svæðið,“ segir Tómas.

Tómas tók meðal annars þessa fallegu mynd af Hvalárfossi á …
Tómas tók meðal annars þessa fallegu mynd af Hvalárfossi á ferðalagi sínu. Ljósmynd/Tómas Guðbjartsson

Hann segist gríðarlega ánægður með umgjörð Norður og niður, og að þarna hitti hann margt fólk sem sé með þeim í liði. „Það er gaman hvað það er magt af framsæknu listafólki sem styður okkur í þessari baráttu og þar er Sigur Rós efst á blaði. Það er rosalega mikilvægt að finna þennan stuðning.“

Sigur Rós styður verkefnið af fullum hug

Umboðsmaður Sigur Rósar, John Best, segir hljómsveitina hafa farið af sjálfsdáðum og haldið tónleika við Kárahnjúkavirkjun á Heima-tónleikaferðalaginu árið 2006. Þeir kvikmyndaframleiðendur sem voru með þeim á ferðalaginu hafi ekki viljað taka upp mótmælin og á endanum hafi tónleikarnir haft lítil sem engin áhrif á virkjunina í Kárahnjúkum.

Hann segir að síðan þá hafi hljómsveitin viljað gera það sem hún getur til að vernda náttúru Íslands. Kjartan Sveinsson, fyrrverandi hljómborðsleikari Sigur Rósar, lét Best vita af herferð Tómasar. Hann bar þá boðskapinn áfram til sveitarinnar sem ákvað að styðja við verkefnið eins og þeir gætu.

Best segir fullt hafa verið út úr dyrum þegar Tómas og Ólafur Már héldu erindi sitt og frumsýndu myndbandið. Þá er dagatal þeirra félaga auk bæklingsins einnig til sölu á hátíðinni.

Hér má horfa á myndbandið á Vimeo.

Frá tónleikaferðalagi Sigur Rósar, Heima, árið 2006.
Frá tónleikaferðalagi Sigur Rósar, Heima, árið 2006.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert