Kosningar, skjálftar og leitin að Birnu

mbl.is/Kristinn

Margt fréttnæmt gerðist hér innanlands á árinu sem er að líða eins og endranær. Meðal annars var loks mynduð ríkisstjórn í byrjun ársins rúmum tveimur mánuðum eftir að þingkosningar fóru fram sem síðan sprakk um haustið sem leiddi til nýrra kosninga. Jarðhræringar urðu á hálendinu og mikil vakning vegna kynferðislegs ofbeldis. Þá vakti athygli þegar leitað var meints fjársjóðs í flaki þýsks kaupskips sem sökkt var í hafinu suður af Íslandi skömmu eftir að síðari heimsstyrjöldin skall á fyrir tæpum átta áratugum.

Þegar árið 2017 hóf innreið sína hafði enn ekki verið mynduð ný ríkisstjórn í landinu í kjölfar þingkosninganna sem fram fóru í október á síðasta ári. Starfsstjórn fráfarandi stjórnarflokka, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, var því enn við völd. Ýmsar tilraunir höfðu verið gerðar til þess að mynda ríkisstjórnir bæði til hægri og vinstri en án árangurs. Svo fór að lokum að Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð náðu saman um myndin ríkisstjórnar með eins manns meirihluta á bak við sig eða 32 þingmenn af 63.

Hörmulegt mál sem hafði áhrif á allt samfélagið

Hörmulegur atburður átti sér einnig stað í byrjun ársins þegar ung kona, Birna Brjánsdóttir, hvarf sporlaust eftir að hafa verið að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur. Víðtæk leit hófst að henni meðal annars með þátttöku björgunarsveita og Landhelgisgæslunnar auk lögreglu og er óhætt að segja að öll þjóðin hafi fylgst með málinu. Böndin beindust loks að grænlenska togaranum Polar Nanoq sem legið hafði í Hafnarfjarðarhöfn. Var farið fram á að skipinu yrði snúið við til Íslands á leið þess til Grænlands og var orðið við því.

Thomas Möller Olsen í Héraðsdómi Reykjaness.
Thomas Möller Olsen í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjórir skipverjar voru handteknir í kjölfarið en tveimur þeirra fljótlega sleppt. Öðrum þeirra var síðar einnig sleppt en hinn var áfram í varðhaldi en hann var grunaður um að hafa orðið Birnu að bana. Ýmis gögn fundust sem voru talin tengja manninn, Thomas Möller Olsen, við málið. Meðal annars fannst blóð úr Birnu í bílaleigubíl sem hann hafði haft á leigu. Lík Birnu fannst loks í fjörunni við Selvogsvita á Reykjanesi síðari hluta janúar. Möller var ákærður fyrir að hafa banað henni og ennfremur fyrir smygl á hassi sem fannst í togaranum.

Réttarhöld yfir Möller fóru fram síðar á árinu og var hann að lokum dæmdur í 19 ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness og til greiðslu 29 milljóna króna í málskostnað og miskabætur. Málinu hefur verið áfrýjað og verður væntanlega tekið fyrir af nýjum dómstól, Landsrétti, á nýju ári. Verjandi hans telur meðal annars að lögreglan hafi staðið með ólögmætum hætti að handtöku Olsens um borð í Polar Nanoq þegar togarinn var á leið aftur til íslands. Skipið hafi þannig ekki verið komið inn í íslenska landhelgi. Lögreglan hefur vísað þessu á bug.

Ríkisstjórnarsamstarfinu sitið vegna uppreistar æru

Mikil umræða varð um ákvæða laga um uppreist æru einstaklinga sem hlotið hafa dóma og sótt um slíkt eftir að greint var frá því að dæmdur kynferðisbortamaður, Robert Downey, hefði verið veitt uppreist æra á síðasta ári en hann var á sínum tíma dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn þremur stúlkum. Ættingjar vildu fá upplýsingar um hverjir hefðu veitt honum meðmæli í tengslum við umsóknina en dómsmálaráðuneytið hafnaði því á þeim forsendum að ekki væri ljóst hvaða upplýsingar mætti veita í þeim efnum.

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar um …
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar um uppreist æru. mbl.is/Kristinn Magnússon

Málið fór fyrir úrskurðarnefnd upplýsingamála sem úrskurðaði að veita ætti upplýsingar um meðmælendur vegna uppreistar æru að undanskildum ákveðnum persónuupplýsingum. Dómsmálaráðuneytið lét taka saman meðmælendur vegna uppreistar æru aftur til ársins 1995 og voru þær upplýsingar síðan birtar um haustið. Skömmu áður var greint frá því í fjölmiðlum að faðir Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra, væri á meðal meðmælenda Hjalta Sigurjóns Haukssonar sem dæmdur var fyrir kynferðisbrot.

Dómsmálaráðherra, Sigríður Andersen, upplýsti að hún hefði vitað af meðmælum Benedikts Sveinssonar, föður Bjarna, um sumarið eftir að henni hafi verið greint frá því innan ráðuneytisins í óspurðum fréttum. Í kjölfarið hafi hún talið rétt að greina Bjarna frá því. Þá hafi ekki verið ljóst hvaða upplýsingar mætti veita í þessum efnum. Varð þetta til þess að Björt framtíð sleit ríkisstjórnarsamstarfinu um miðjan september á þeim forsendum að trúnaðarbrestur hefði orðið þar sem upplýsingum um málið hefði ekki verið deilt innan stjórnarinnar.

Nýjar kosningar og vakning vegna kynferðisareitni

Tekin var ákvörðun í kjölfarið að boða til nýrra þingkosninga tæpu ári eftir að kosið hafði verið síðast til þings. Kosningabaráttan hófst fljótlega en kosið var 28. október. Skoðanakannanir sýndu Vinstrihreyfinguna - grænt framboð lengi vel með mest fylgi og gott forskot á Sjálfstæðisflokkinn en í kosningunum hélt síðarnefndi flokkurinn stöðu sinni sem stærsti flokkurinn þó hann tapaði umtalsverðu fylgi. VG hlaut næst mest fylgi. Björt framtíð féll hins vegar út af þingi og missti þá fjóra þingmenn sem flokkurinn hafði haft.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir flokkar fengu í fyrsta sinn þingmenn kjörna á Alþingi. Annars vegar Miðflokkurinn sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, stofnaði skömmu fyrir kosningar eftir að hann ákvað að segja skilið við Framsóknarflokkinn, og hins vegar Flokkur fólksins sem bauð fram á síðasta ári líka en náði þá ekki kjöri. Miðflokkurinn fékk sjö þingmenn en Flokkur fólksins fjóra. Metfjöldi flokka á nú sæti á þingi eða átta. Í kjölfar kosninganna var mynduð ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.

Vakning átti sér stað hvað varðar kynferðislegt ofbeldi í garð kvenna á síðari hluta ársins. Má rekja upphaf þess til ásakana í garð bandaríska kvikmyndaframleiðendans Harvey Weinstein um ofbeldi í garð fjölda leikkvenna í gegnum tíðina. Í kjölfarið gengu konur meðal annars í stjórnmálum í Svíþjóð fram og lýstu ofbeldi sem þær hefðu orðið fyrir í störfum sínum. Það varð til þess að konur í ýmsum starfsstéttum á Íslandi, meðal annars í listasamfélaginu, fræðasamfélaginu og stjórnmálum hafa stigið fram með sama hætti undanfarnar vikur.

Vistmenn á Kópavogshæli og plastbarkamálið

Fram kom í skýrslu vistheimilanefndar í febrúar að ljóst væri að börn sem vistuð voru á full­orðins­deild­um Kópa­vogs­hæl­is hefðu í veru­leg­um mæli þurft að sæta lík­am­legu og and­legu of­beldi meðan á vist­un stóð. Þá hefðu stjórn­völd í veru­leg­um mæli van­rækt að skapa skil­yrði svo mæta mætti lög­bundn­um kröf­um um aðbúnað barna. Fjallað var í fjölmiðlum í framhaldinu um reynslu fólks sem vistað hefði verið á Kópavogahæli. Meðal annars Haraldar Ólafssonar sem var vistaður á stofnuninni frá þriggja ára aldri og fram á fullorðinsár vegna fötlunar sinnar.

Paolo Macchiarini.
Paolo Macchiarini.

Framhald varð á svonefndu plastbarkamáli, þar sem græddur var plastbarki í sjúkling á Karolinska-sjúkrahúsinu í Svíþjóð með aðkomu íslenskra heilbrigðisstarfsmanna, á árinu. Sjúklingurinn, sem var með krabbamein, lést í framhaldinu. Sérstök nefnd skilaði skýrslu í byrjun nóvember þar sem meðal annars kemur fram að ítalski skurðlæknirinn Paolo Macchiarini hafi blekkt Tómas Guðbjartsson skurðlækni, sem er harðlega gagnrýndur í skýrslunni, til þess að breyta tilvísun svo leyfi fengist fyrir aðgerðinni.

Tómas hefur lýst því yfir að hann harmi að hafa ekki sýnt meiri aðgæslu í samskiptum við Karolinska-sjúkrahúsið og Macchiarini sem hann hafi lagt mikið traust á. Hann hafi tekið þær ákvarðanir sem hann tók í tengslum við aðgerðina í góðri trú. Tómas var sendur í leyfi í kjölfarið frá Landspítalanum. Macchiarini hefur hafnað því að hafa blekkt Tómas í tengslum við plastbarkamálið og fullyrt að hann hafi haldið honum upplýstum um að til greina kæmi meðal annars sá möguleiki að græða plastbarka í sjúklinginn.

Kísilver, jarðhræringar, lögbann og fjársjóðsleit

Málefni kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík á Reykjanesi voru töluvert í fjölmiðlum á árinu. Ekki síst vegna lyktarmengunar sem íbúar í Reykjanesbæ kvörtuðu ítrekað undan. Fyrirtækið lofaði úrbótum en íbúunum þótti lítið gerast í þeim efnum. Fór svo að lokum að Umhverfisstofnun stöðvaði rekstur verksmiðjunnar. Fór félagið í kjölfarið fram á greiðslustöðvun. Þá kærði stjórn þess Magnús Ólafur Garðarsson, fyrrverandi forstjóra þess, vegna gruns um stórfelld auðgunarbrot og skjalafals. hann hefur hafnað ásökunum.

Dyngjan í Öræfajökli.
Dyngjan í Öræfajökli. mbl.is/RAX

Talsverðar jarðhræringar urðu á árinu og hefur skjálftavirkni þannig meðal annars orðið á Kötlusvæðinu og í Öræfajökli. Jarðvísindamenn og almannavarnir hafa fylgst náið með slíkum svæðum og hefur þurft að lýsa yfir óvissuástandi vegna Öræfajökuls auk þess sem neyðarrýmingaráætlun var kynnt í nóvember sem hægt yrði að grípa til ef á þyrfti að halda. Ekki er útilokað að til eldgoss geti komið í Öræfajökli en sigketillinn í öskjunni hefur haldið áfram að dýpka og vatn hefur flætt undan jöklinum sem væntanlega er vegna aukins hita.

Farið var fram á það um miðjan október af hálfu Glitnis HoldCo ehf. að lögbann yrði lagt við birtingu fjölmiðlanna Stundarinnar og Reykjavík Media ehf. á fréttum og annarri umfjöllun sem byggð væri á eða unnin upp úr gögnum er vörðuðu einkamálefni verulegs fjölda fyrrverandi viðskiptavina Glitnis á þeim forsendum að þau væru bundin bankaleynd. Sýslumaður varð við því í kjölfarið og var í framhaldinu höfðað staðfestingarmál af hálfu félagsins sem er enn fyrir dómstólum. Lögbannið var harðlega gagnrýnt meðal annars af Blaðamannafélaginu.

Talsverða athygli vakti í apríl þegar greint var frá því að sérútbúið rannsóknarskip, Seabed Constructor, væri statt suður af Íslandi í þeim tilgangi að reyna að ná verðmætum upp úr flaki þýska kaupskipsins Minden  sem sökkt var í síðari heimsstyrjöldinni. Hætta varð að lokum við áformin tímabundið þar sem fjársjóðsleitarmenn reyndust ekki hafa tilskilin leyfi hérlendra yfirvalda en þeir sneru síðan aftur síðar á árinu eftir að hafa sótt um leyfin. Mikil leynd hefur hvílt yfir áformunum en talið er að þeir séu á eftir kistu í flakinu sem innihaldi dýra málma.

Rannsóknarskipið Seabed Constructor.
Rannsóknarskipið Seabed Constructor. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert