Búast við mengun yfir heilsuverndarmörkum

Búist er við svifryksmengun yfir heilsuverndarmörkum fyrsta dag ársins vegna flugelda og veðurskilyrða, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg. Þá eru borgarbúar hvattir til þess að sýna aðgát, huga að börnum og gæludýrum og ganga rétt frá flugeldarusli.

Þá segir einnig að minna af flugeldum hafi verið flutt til landsins í ár heldur en í fyrra. Árið 2016 voru flutt inn 662 tonn af flugeldum, til samanburðar við 578 tonn á þessu ári. Þó sé leyfilegt að selja afganga af flugeldum frá síðasta ári.

Ósprungnir flugeldar fari í spilliefnagáma

Mælt er með því að kettir verðir hafðir innandyra dagana í kring um áramót vegna hávaðamengunar, og hundar séu ávallt í taumi.

Reykjavíkurborg mun standa að tíu brennum víðsvegar um borgina á gamlárskvöld, sem flestar hefjast klukkan 20:30. Þær verða staðsettar við Ægisíðu, Suðurhlíðar, Suðurfell, Rauðavant, Gufunes, Kléberg á Kjalarnesi, Úlfarsfell, Geirsnef og í Laugardal og Skerjafirði.

Þá er biðlað til borgarbúa að ganga frá flugeldarusli, enda sé hreinsun borgarlandsins kostnaðarsöm. Bent er á að þó svo að flugeldar séu úr pappa þá sé leir notaður í botninn og því séu þeir ekki hæfir til endurvinnslu og eigi að fara í almennt sorp. Ósprungnir flugeldar eiga að fara í spilliefnagáma á endurvinnslustöðvum Sorpu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert