Heilbrigðiskerfið vann þrekvirki

Þyrla Landhelgisgæslunnar við Landspítalann í Fossvogi í fyrradag.
Þyrla Landhelgisgæslunnar við Landspítalann í Fossvogi í fyrradag. mbl.is/Árni Sæberg

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að þrekvirki hafi verið unnið, jafnt á Landspítala og utan hans, þegar heilbrigðiskerfi landsins þurfti að glíma við fimmtíu manna hópslys í fyrradag. Hann bendir á að álag á Landspítalann hafi aukist mjög vegna mikillar fjölgunar erlendra ferðamanna.

„En þetta slys er til marks um nýjar áskoranir sem við þurfum að glíma við. Með milljónum ferðamanna, ekki aðeins á Íslandi heldur í nágrannalöndunum, á hafinu og á flugi yfir svæðinu eykst þörfin fyrir öflugt sjúkrahús á Norður-Atlantshafi,“ skrifar Páll í pistli sem birtist á heimasíðu Landspítalans.

Hann segir að árið sem sé að renna sitt skeið hafi verið annasamt á Landspítala. Álag hafi áfram aukist, sem helgist fyrst og fremst af tvennu.

Óheppilegasta hjúkrunarheimili landsins

„Annars vegar því að þrátt fyrir allar þær snjöllu lausnir og nýju leiðir sem starfsfólk spítalans hefur tekið upp á árinu til að greiða leið sjúklinga okkar að bestu þjónustu þá eykst sífellt fjöldi þess aldraða heiðursfólks sem þarf meiri stuðning í heimahúsum og hjúkrunarrými. Þegar slíkt skortir þá bíður fólk von úr viti á spítalanum, sem ég þrátt fyrir alla hans kosti leyfi mér að kalla óheppilegasta hjúkrunarheimili landsins,“ skrifar Páll.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Sigurður Bogi

„Hins vegar þá hefur álag aukist mjög vegna mikillar fjölgunar erlendra ferðamanna. Síðasta dæmi um það hvaða afleiðingar slíkt hefur sáust í fyrradag þegar heilbrigðiskerfi landsins þurfti allt í einu að glíma við fimmtíu manna hópslys erlends ferðafólks. Viðbrögð allra, jafnt á Landspítala sem utan hans, voru til fyrirmyndar svo betur fór en á horfðist. Þar var unnið þrekvirki sem við erum öll stolt af. En þetta slys er til marks um nýjar áskoranir sem við þurfum að glíma við. Með milljónum ferðamanna, ekki aðeins á Íslandi heldur í nágrannalöndunum, á hafinu og á flugi yfir svæðinu eykst þörfin fyrir öflugt sjúkrahús á Norður-Atlantshafi.“

Hann bendir enn fremur á, að á sama tíma og álag aukist glími Landspítali við margt annað.

„Endurnýjun húsnæðis er á góðri leið en biðin reynir á enda margar af okkar eitt hundrað byggingum í slæmu ásigkomulagi. Rekstrarfé dugir ekki til að greiða fyrir þær nýjungar og sókn sem við erum öll langeyg eftir. Erfiðleikar í mönnun, einkum við hjúkrun, er síðan flóknasta áskorunin. Lausnir þess vanda eru margþættar og snúast um að mennta fleiri og skapa þannig vinnuaðstæður og kjör að fólk fáist til starfa,“ skrifar Páll.

Niðurstaða ársins fjárhagslega betri en menn þorðu að vona

Hann segir mikilvægt að heilbrigðisstofnanir, heilbrigðisyfirvöld og menntastofnanir snúi bökum saman í þessu verkefni. Slíkt muni þó ekki takast nema með fjármálaráðuneyti og Alþingi sem bakhjarla.

„Niðurstaða þessa árs stefnir í að verða fjárhagslega betri en við hefðum þorað að vona, með samstilltu átaki starfsfólks og ákveðnum skilningi stjórnvalda. Á næstu mánuðum mun svo ný ríkisstjórn vinna nýja fimm ára fjármálaáætlun. Þar er mikilvægt að sjónarmið Landspítala og opinbera heilbrigðiskerfisins alls fái skýran hljómgrunn enda kostnaður við stórsókn í heilbrigðismálum af þeirri stærðargráðu að gera verður ráð fyrir slíku í langtíma fjármálum ríkisins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert