Afhentu Kvennaathvarfinu 78 milljónir

Á myndinni eru, frá vinstri: Eygló Harðar, Sigþrúður Guðmundsdóttir, Elísabet …
Á myndinni eru, frá vinstri: Eygló Harðar, Sigþrúður Guðmundsdóttir, Elísabet Sveinsdóttir, Gróa Ásgeirsdóttir, Guðný Pálsdóttir, Edda Ólafsdóttir, Soffía Eydís Björgvinsdóttir og Fríða Bragadóttir mbl.is/Árni Sæberg

Í dag afhenti Á allra vörum Kvennaathvarfinu þá fjármuni sem söfnuðust í þjóðarátakinu sem fram fór í september síðastliðinn, en um er að ræða 78 milljónir króna söfnuðust bæði með frjálsum framlögum og sölu á varasettum. Safnað var fyrir íbúðarhúsnæði fyrir konur sem eiga ekki í önnur hús að venda eftir að dvöl í Kvennaathvarfinu lýkur.

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, segir þetta hafa verið magnað ferðalag og stórkostlegt að fylgjast með krafti kvenna í sinni tærustu mynd.

„Að mínu viti hefur söfnun af þessu tagi tvíþætt gildi; peningarnir eru nauðsynlegir til húsbyggingarinnar, en síðan er það sú mikla umræða sem átti sér stað samhliða söfnuninni sem er gríðarlega mikilvæg sem og þessi mikli hlýhugur í garð kvenna og barna sem hafa þurft að flýja heimili sín vegna ofbeldis. Við hlökkum til að sjá nýtt húsnæði rísa með hjálp frá svo ótalmörgum og erum fullvissar um að starfsemin, þegar þar að kemur, muni skipta sköpum í lífi kvenna og barna sem þar munu búa.“

Söfnunarátakinu lauk formlega þann 23. september síðastliðinn en fram kemur í tilkynningu að það taki alltaf dágóðan tíma að innheimta áheitin. Gróa Ásgeirsdóttir, ein þeirra sem stendur fyrir átakinu segir heimtur sem betur fer nokkuð góðar, en um 96 prósent af öllum áheitum skiluðu sér.

Þær stöllur sem standa að Á allra vörum vilja koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem tóku þátt í átakinu og undirbúningi þess. Þetta er áttunda söfnunin sem haldin er undir merkjum Á allra vörum og alls hafa safnast ríflega 600 milljónir króna sem komið hafa að góðum notum fyrir samfélagið allt. Áður hafa þær styrkt Krabbameinsfélagið, Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, Ljósið, Neistann, Leiðarljós, geðsvið Landspítalans og Erindi-samtök gegn einelti.

„Við erum óendanlega þakklátar fyrir stuðning þjóðarinnar allrar. Það eru ekki til nóg stór orð til að lýsa þakklæti okkar“, segir Guðný Pálsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert