„Þetta er að verða nokkuð vígalegt“

Tekið verður á móti efni í brennurnar til hálf átta …
Tekið verður á móti efni í brennurnar til hálf átta í kvöld og svo aftur í fyrramálið og til hádegis, eða þangað til bálkestirnir eru orðnir hæfilega stórir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vel gengur að hlaða bálkesti fyrir áramótabrennur í Reykjavík annað kvöld, en brennur verða á tíu stöðum víða um borgina.

„Það hefur gengið ágætlega hjá okkur. Við höfum mest verið að fá aðkeypt efni frá gámafélögunum. Þetta kemur frá fyrirtækjum, mikið af brettum,“ segir Þorgrímur Hallgrímsson, brennustjóri á Ægissíðu og í Suðurhlíðum.

Hann segir lítið um það í seinni tíð að almenningur komi með efni í brennurnar, enda gilda strangar reglur um hvað má fara á kestina og hvað ekki. Það eru þó alltaf einhverjir sem koma til dæmis með jólatré, en þau eru alltaf vel þegin.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Nú er þetta bara hreint timbur sem má brenna. Það liggur örugglega ekki mikið hreint timbur á lausu. Það má ekki vera málning eða neitt á þessu. Jólatré mega hins vegar brenna og það er alltaf eitthvað sem kemur að því.“ Plast, gúmmí og unnið timbur má ekki fara á bálkestina. Að sögn Þorgríms er reykurinn sem myndast því bara svipaður og frá arin eða kamínu og ætti ekki að vera skaðlegur.

Þorgrími hefur heyrst á öðrum brennustjórum borgarinnar að vel hafi gengið að hlaða bálkesti á öllum stöðum og allt sé að verða tilbúið. „Þetta er að verða nokkuð vígalegt.“

Brennan úti á Ægissíðu.
Brennan úti á Ægissíðu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tekið verður á móti efni í brennurnar til hálf átta í kvöld og svo aftur í fyrramálið og til hádegis, eða þangað til bálkestirnir eru orðnir hæfilega stórir.

Starfsmenn hverfastöðva Reykjavíkurborgar verða á vettvangi við flestar brennurnar og leiðbeina þeim sem koma með efni. Upp úr hádegi á morgun, gamlársdag, verður olía sett á bálkestina og er það Skeljungur sem leggur því verki lið. Starfsmenn borgarinnar verða við vakt við brennur í framhaldi af því og standa vaktina fram eftir nóttu. 

Að sögn Þorgríms verður svo byrjað að slökkva í brennunum uppúr klukkan tvö á nýársnótt, en brennurnar verða vaktaðar þangað til eldar eru slokknaðir.

Áramótabrennur á höfuðborgarsvæðinu.
Áramótabrennur á höfuðborgarsvæðinu. Kort/mbl.is

Áramótabrennur verða á eftirtöldum stöðum í Reykjavík:

1) Við Ægisíðu, stór brenna.

2) Í Skerjafirði gegnt Skildinganesi 48 - 52,  lítil brenna (tendrað kl. 21.00, eftir blysför sem hefst kl. 20.30).

3) Við Suðurhlíðar, neðan við Fossvogskirkjugarð, lítil brenna.

4) Laugardalur, fyrir neðan Laugarásveg 18,  lítil brenna.

5) Geirsnef, á norðanverðu Geirsnefi, stór brenna.

6) Við Suðurfell, lítil brenna.

7) Við Rauðavatn að norðanverðu, stór brenna.

8) Gufunes við Gufunesbæ, stór brenna.

9) Við Kléberg á Kjalarnesi, lítil brenna.

10) Úlfarsfell á athafnasvæði Fisfélagsins ofan við Lambhagaveg, lítil brenna (tendrað kl. 15.00)

Eldur er borinn að bálköstunum kl. 20.30 á gamlárskvöld á öllum stöðum nema tveimur. Á Úlfarsfelli er tendrað kl. 15.00 um daginn og í Skerjafirði er eldur borinn að kestinum kl. 21.00 eftir blysför sem hefst kl. 20.30. Engin formleg dagskrá er á borgarbrennunum en fólk er hvatt til að rifja upp álfasöngvana og mæta með góða skapið.

Fólk er hvatt til að skjóta ekki upp flugeldum við brennurnar, en blys og stjörnuljós eru betur séð. Þá er fólk minnt er á hlífðargleraugu og hanska. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert