Stormur við suðurströndina á morgun

Það hvessir úr austri á morgun og má búast við …
Það hvessir úr austri á morgun og má búast við snörpum vindhviðum við suðurströndina. mbl.is/RAX

Hægur vindur og bjartviðri verður á vesturhelmingi landsins í dag, en norðan- og austanlands má búast við nokkrum strekkingi og éljum. Frost verður á bilinu 1-11 stig, kaldast á vestanverðu landinu.

Á morgun gengur svo í austan hvassviðri, með stormi syðst á landinu og verður gul viðvörun í gildi vegna stormsins á Suðurlandi og Suðausturlandi, frá hádegi á morgun og fram á miðvikudagsmorgun. Storminum fylgir heitt loft á suðurströndinni og þar mun hitinn fara yfir núll gráður, samkvæmt spákorti Veðurstofunnar.

Vindhviður gætu farið yfir 35 metra á sekúndu sunnan Eyjafjallajökuls, Mýrdalsjökuls og Öræfajökuls, þar sem vindur verður mestur og í þeim aðstæðum er varasamt að vera á ferðinni á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind. Annars staðar á svæðinu er búist við að vindur verði hægari, en þó þokkalegasti blástur samkvæmt vakthafandi veðurfræðingi hjá Veðurstofu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert