Snýst ekki síst um gagnsæi og jafnræði

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég hef einfaldlega talið fara betur á því að þessi veiting ríkisborgararéttar sé gerð með stjórnvaldsákvörðun frekar en lagasetningu,“ segir Sigríður Andersen dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is en hún sat hjá ásamt sex öðrum þingmönnum við afgreiðslu Alþingis á frumvarpi um að 76 manns yrði veittur ríkisborgararéttur.

Það gerði Sigríður vegna þess að hún telur að breyta þurfi fyrirkomulaginu varðandi veitingu Alþingis á ríkisborgararétti. Þingi yrði þó ekki svipt heimild til þess að veita ríkisborgararétt heldur yrði það fremur við sérstakar aðstæður en ekki fastur liður á hverju ári eins og í dag.

Frétt mbl.is: 76 fá íslenskan ríkisborgararétt

Sigríður boðaði síðasta vor breytingu á lögum um veitingu ríkisborgararéttar þar sem gert yrði ráð fyrir meira svigrúmi við afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt í stjórnsýslunni til þess að bregðast við aðstæðum þar sem umsækjendur uppfylltu ekki að öllu leyti skilyrði fyrir veitingunni. Skilyrði sem séu þó alls ekki ströng.

„Vitanlega verður það alltaf þannig að Alþingi mun geta sett lög um veitingu ríkisborgararéttar. Það verður ekki tekið af þinginu. Síðan kunna að koma upp sérstakar aðstæður þar sem eðlilegt og sanngjarnt getur talist að Alþingi setji lög um veitingu ríkisborgararéttar í einstökum tilfellum,“ segir Sigríður.

Umsóknir afgreiddar með sambærilegum hætti

Málið snúist ekki síst um gagnsæi og jafnræði. Tilviljanakennt sé hversu margir fái ríkisborgararétt í meðförum Alþingis hverju sinni og eftir sitji fjöldi fólks sem ekki hafi náð að uppfylla skilyrðin fyrir veitingu ríkisborgararéttar og fær hann ekki í gegnum þingið og erfitt sé oft að svara þeim hvað það sé í raun sem valdi því.

„Ég vil árétta að ekki er verið að leggja til að taka þetta vald af Alþingi enda verður það ekki gert. Það er heldur ekki um að ræða einhverja takmörkun á veitingu ríkisborgararéttar heldur einfaldlega að allar umsóknir séu afgreiddar með sambærilegum hætti allajafna nema mjög ríkar ástæður séu til þess að víkja frá því.

Frétt mbl.is: Vill breyta fyrirkomulaginu

Dómsmálaráðherra segist ekki hafa skynjað annað en vilja á meðal þingmanna að gera slíkar breytingar á fyrirkomulaginu. Málið kom meðal annars til umræðu á Alþingi síðasta vor. Þar lagði Birgitta Jónsdóttir, þáverandi þingmaður Pírata, það til að Alþingi léti alfarið af því að veita ríkisborgararétt. Sagði hún meðal annars:

„Það er skringi­legt að Alþingi sé að skipta sér af þess­um mála­flokki á þenn­an hátt og ég myndi mjög gjarn­an vilja sjá að hægt sé að veita rík­is­borg­ara­rétt með und­anþágum, eins og við erum að gera hér, á ann­an veg,“ sagði hún.

mbl.is/Hjörtur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert