„Þetta er líklega mengunarmet“

„Þetta er líklega mengunarmet á gamlárskvöld hérna á höfuðborgarsvæðinu. Þannig mældust við Dalsmára í Kópavogi 4500 míkrógrömm í rúmmetra eins og það er kallað. Þar var líka mjög há mæling í fyrra eða þrjú þúsund. Þegar Eyjafjallajökull gaus mældist mest í kringum tvö þúsund í Reykjavík. Þá mældist reyndar um 14 þúsund í Vík í Mýrdal.“

Þetta segir Þorsteinn Jóhannsson, umhverfisfræðingur og sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, í samtali við mbl.is. „Þetta er líklega hæsta skammtímagildið sem við höfum verið að mæla. menn eru oft að horfa á heilsuverndarmörkin en þau eru fimmtíu en þá er miðað við meðaltal í heilan sólarhring. Þannig að það er svolítið erfitt að bera það saman við 4500. En ef þetta hefði verið 4500 samfellt í sólarhring væri þetta 90 sinnum yfir mörkunum.“

Frétt mbl.is: Vill frekar banna eitruð innihaldsefni

Þorsteinn segir að þó þarna hafi vissulega verið um að ræða aðstæður sem hafi verið aðallega í nokkra klukkutíma þá hafi mengunin verið óvenjulega lengi til staðar. „Oft er þetta svona einn til tvo tíma, jafnvel fram á nýársnótt. En nú var þetta í allan dag líka. Ekki svona mikið en fram yfir svona klukkan tvö mátti greinilega sjá bláhvítamóðu yfir borginni.“

Mengun vegna umferðar hafi ekki verið mikil á sama tíma enda allar götur rakar og því ekkert gatnaryk að þyrlast. „Þannig að þetta var fyrst og fremst bara flugeldamengun. Það var svona hægviðri og áttleysa þannig að þetta var bara að þvælast fram og til baka, mengunarskýið, í alla nótt.“ Síðan hafi verið skotið upp í dag og verði væntanlega í kvöld.

„Hvað innihaldið varðar er þetta verri mengun en gosaskan. Það var ekki mikið af öðrum efnum með henni. En þarna er mikið til um að ræða sót og miklu meira af óæskilegum efnum og þungmálmum í svona flugeldareyk en í venjulegum brunareyk því það er viljandi bætt þungmálum út í því að hver málmur gefur sinn lit.“

Frétt mbl.is: Sævar Helgi vill banna flugelda

Blý hefur ennfremur jafnvel áhrif á sprengikraftinn þannig að í gegnum tíðina hafi blýi verið bætt út í til þess að fá fram ákveðna eiginleika. Sum Evrópulönd hafi bannað flugelda með blýi eða sett takmörk á það. Til að mynda Danmörk. Erfitt gæti verið að banna alla þungmálma en það væri hægt að fara þá leið að banna blý.

Fyrir vikið sé ekki hægt að hanna umhverfisvæna og mengunarlausa flugelda. En það sé hins vegar hægt að búa til „umhverfisskárri“ flugelda. Þungmálmarnir skiptist hins vegar í tvennt. Þeir sem séu alltaf eitraðir og óæskilegir sem séu blý, kadmín, kvikasilfur og arsenik. Síðan séu málmar eins og nikkel, kopar og sink sem einnig séu notaðir.

„Þessir málmar eru óæskilegir í miklu magni en eru líka snefil-næringarefni,“ segir Þorsteinn. Hins vegar sitji menn alltaf upp með sótið og rykið. Það sé eiginlega óhjákvæmilegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert