„Einboðið að það sé bótaskylda“

Landsréttur er með aðsetur í Kópavogi.
Landsréttur er með aðsetur í Kópavogi. mbl.is/Hanna

Eiríkur Jónsson lagaprófessor hefur ekki tekið ákvörðun um það hvort hann fari sömu leið og héraðsdómarinn Jón Höskuldsson sem hafið hefur undirbúning að dómsmáli gegn íslenska ríkinu vegna ákvörðunar Alþingis að skipa hann ekki sem dómara við Landsrétt. Lögmaður Eiríks segir það þó einboðið að bótaskylda sé til staðar í hans tilfelli. 

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra leit einnig framhjá Eiríki þegar skipað var í embætti dómara við réttinn, en samkvæmt matsnefnd var hann í hópi 15 hæfustu umsækjenda, líkt og Jón.

Áður höfðu tveir aðrir umsækjendur, Ástráður Haraldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannsson, höfðað mál á hendur ríkinu vegna þess að fram hjá þeim var gengið við skipunina. Var það niðurstaða Hæstaréttar að dómsmálaráðherra hefði brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga þegar hún vék frá niðurstöðu matsnefndar við skipun dómara í Landsrétt og gekk framhjá fjórum umsækjendum. Ríkið var dæmt til að greiða Ástráði og Jóhannesi hvorum um sig 700 þúsund krónur í miskabætur. Ríkið var hins vegar sýknað af skaðabótakröfu í málum þeirra.

Eiríkur Jónsson lagaprófessor.
Eiríkur Jónsson lagaprófessor. Ljósmynd/Af vef Alþingis

„Það er annað með skaðabæturnar í þessu máli. Að okkar mati er það algjörlega einboðið að það sé bótaskylda af því aðstæður eru öðruvísi en í dómsmálunum. Svona útfrá þeim sjónarmiðum sem sett voru fram dómum Hæstaréttar varðandi það að ákvörðunin hafi verið ólögmæt og aðferðafræðin við að meta hvort það hafi orðið tjón eða ekki,“ segir Grímur Sigurðsson, lögmaður Eiríks í samtali við mbl.is

Líkt og RÚV greindi fyrst frá í gær fer Jón fram á ríflega 30 milljónir króna í miska- og skaðabætur vegna málsins en hann sendi bréf til dómsmálaráðherra fyrir jól, þar sem krafan var sett fram. Í frétt RÚV kom fram að frestur hefði verið veittur fram að áramótum til að svara bréfinu, en að það hafi ekki verið gert innan þeirra tímamarka. Því sé nú farið í að undirbúa dómsmál.

Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu var lögmanni Jóns þó svarað daginn eftir að bréfið barst og honum tilkynnt að ráðuneytið hefði falið Ríkislögmanni að fara með málið.

Bréf með kröfu um miskabætur og viðurkenningu á bótaskyldu vegna fjártjóns var sent á ríkislögmann fyrir hönd Eiríks þann 28. desember síðastliðinn, en Grímur segir ákveðinn frest hafa verið veittan til svara. Hann vill þó ekki gefa upp hve langur hann er. „Við báðum um svör innan ákveðins frests og hann var bara sanngjarn.“

Grímur segir mál skjólstæðings síns því vissulega vera í svipuðum farvegi og mál Jóns, þrátt fyrir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um dómsmál. Hann segir engar ákvarðanir hafa verið teknar um næstu skref verði ekki brugðist við bréfinu. „Við gerum ráð fyrir að við fáum einhver svör og að það sé hægt að vinna með það.“

Í kröfu Eiríks eru upphæðir bóta ekki tilgreindar, líkt og hjá Jóni. „Það er búið að fara fram á viðurkenningu á bótaskyldu og greiðslu miskabóta. Það eru engar upphæðir settar fram en það voru auðvitað upphæðir í dómunum,“ segir Grímur til áðurnefndra dóma Hæstaréttar.

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert