Hópmálsókn undirbúin gegn United Silicon

„Við höfum verið að safna upplýsingum frá öllum aðilum til þess að byggja upp heildarmynd og síðan verður farið yfir gögnin og skoðað hvað fleira sé hægt að kæra þarna,“ segir Þórólfur Júlían Dagsson, talsmaður Andstæðinga stóriðju í Helguvík (ASH), en hópurinn undirbýr hópmálsókn gegn starfsemi United Silicon í Helguvík á Reykjanesi.

Tilgangur málsóknarinnar er einkum sá að fá starfsleyfi Kísilverksmiðju United Silicon í helguvík ógilt en ASH telur að það hafi verið veitt á fölskum forsendum. Vísar Þórólfur þar meðal annars til þess að fyrir liggi að sú verksmiðja sem reist hafi verið í Helguvík sé engan veginn sú sama og kynnt hafi verið fyrir bæði íbúum og fjárfestum á sínum tíma.

Til stendur að halda íbúafund síðar í þessum mánuði í Reykjanesbæ þar sem fólki verður gefinn kostur á að taka þátt í málsókninni. Fundurinn verði auglýstur síðar. Markmiðið með málsókninni er ekki síst að vera fyrirbyggjandi upp á framtíðina svo að svona lagað endurtaki sig ekki að sögn Þórólfs. Íbúarnir eigi að njóta vafans en það hafi ekki átt við í þessu tilfelli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert