Eru konur betri læknar en karlar?

Margar spurninga vakna þegar rýnt er í niðurstöðu rannsóknanna. Mynd …
Margar spurninga vakna þegar rýnt er í niðurstöðu rannsóknanna. Mynd úr safni. mbl.is/Ásdís

Vísbendingar eru um að konur séu mögulega betri læknar en karla. Þetta kemur fram í tveimur greinum í virtum vísindatímaritum og greint er frá í leiðara nýjasta Læknablaðsins. Í rannsóknunum var meðal annars skoðuð dánartíðni, tíðni endurinnlagna og útkomur sjúklinga eftir skurðaðgerðir með hliðsjón af kyni læknis.     

„Þetta eru tvær stórar greinar, aðferðafræðin er góð, margar sérgreinar liggja þarna undir og virtir einstaklingar standa á bak við þær. Það er því erfitt að horfa fram hjá þessu,“ segir Elsa B. Valsdóttir skurðlæknir á Landspítalanum og leiðarahöfundur Læknablaðsins. Hún bendir á að fleiri sambærilegar greinar um þetta efni eiga eflaust eftir að birtast á næstu árum sem munu renna stoðum undir þetta ef engu er breytt, að mati Elsu.  

Erum við kannski komin í Hjallastefnuna í læknadeild?

Margar spurninga vakna þegar rýnt er í niðurstöðu rannsóknanna. „Hvaða spurninga ætlum við að spyrja? Eru þetta eitthvað eðlislægt og genabundið sem við getum ekki gert neitt í? Hvað ætlum við þá að gera? Eða eru þetta samskiptahættir sem hægt er að kenna fólki alveg sama hvers kyns það er? Þurfum við að kenna kven- og karl læknanemum mismunandi? Erum við kannski komin í Hjallastefnuna í læknadeild? Það eru allskonar spurningar sem við höfum ekki spurt að og við þurfum að gera það núna,“ segir Elsa.

Í þessu samhengi bendir hún á að á síðustu árum hefur verið gert stórt átak í kennslu samskiptafræði og -tækni í læknisfræði. Til að mynda hefur orðið bylting í þeim fræðum frá því Elsa útskrifaðist fyrir nokkrum áratugum en þá var ekkert slíkt kennt.

Fram að þessu hefur mikið verið rannsakað t.d. áhrif notkun lyfja, tækni, ýmissa skurðaðgerða og öðrum „dauðum“ hlutum í læknisfræðinni. „Núna fyrst erum við að beina sjónum okkar að okkur sjálfum og þurfum að skoða raunverulega hvað það er sem gerir góðan lækni góðan,” segir Elsa. Hún bindur miklar vonir við ungu kynslóðina í læknisfræðinni sem er klár og opin og er tilbúin að horfa á hlutina frá mismunandi sjónarhorni og ekki síst inn á við.

Hélt að munurinn væri ekki ýkja mikill

Niðurstöður greinanna komu Elsu talsvert á óvart. „Ég hefði haldi að eftir allt þetta nám og áralanga þjálfun að hafi fólk komið með einhvern mismun í námið hafi hann máðst að mestu út í myllukvörn læknanámsins,” segir Elsa og bætir við: „Þetta er ábending og hvatning til stéttarinnar að horfa inn á við og skoða þetta betur.“

Í þessum mánuði fara fram læknadagar í Hörpu þar sem ótal fjölbreytt erindi verða haldin sem varða læknavísindin. Þetta verður þó ekki eitt af þeim en verður líklega fjallað um á næsta ári. „Við rétt náðum að koma inn #metoo á dagskrána en hún er ákveðin um sex mánuði fram í tímann,“ segir Elsa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert