Hallgrímur hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs

Hallgrímur Helgason hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf.
Hallgrímur Helgason hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf. Ljósmynd/RÚV

Hallgrímur Helgason hlaut í dag viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins. Viðurkenningin er hluti af Menningarviðurkenningum RÚV sem afhentar voru við hátíðlega athöfn í Útvarpshúsinu við Efstaleiti.

Veitt var viðurkenning úr Rithöfundasjóði og styrkir úr Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins. Auk þess veitti Rás 2 Krókinn, verðlaun fyrir framúrskarandi lifandi flutning árið 2017 og tilkynnt var um valið á orði ársins.

Hallgrímur hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf. Í rökstuðningi úthlutunarnefndar segir meðal annars: „Íslenskum bókaunnendum varð snemma ljóst að þar fór höfundur sem vildi ekki aðeins skrifa sig inn í íslenska bókmenntasögu sem ungur og metnaðarfullur höfundur, heldur líka gera það með nýjum hætti og vera öðruvísi en hinir sem þá þegar voru orðnir þekktir af verkum sínum.“

„Við megum ekki gera bókmenntirnar of hátíðlegar,“ sagði Hallgrímur þegar hann tók við viðurkenningunni.  „Ég meina, þær eru ekkert svo mikið merkilegra fyrirbæri en önnur. Þetta er bara svona fólk sem getur ekki sagt það sem það ætlaði að segja eða kemur því ekki fyrir í einu kommenti.“

Hljómsveitin Mammút hlaut Krókinn 2017 - viðurkenningu Rásar 2, fyrir framúrskarandi flutning á árinu.

Hljómsveitin Mammút hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi flutning á liðnu ári.
Hljómsveitin Mammút hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi flutning á liðnu ári. Ljósmynd/RÚV

Þá voru 92 styrkir veittir úr Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins og STEFs.

Val á orði ársins var einnig tilkynnt við athöfnina, en RÚV, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Mímir, félag stúdenta í íslensku og almennum málvísindum við Háskóla Íslands, standa saman að því að leyfa landsmönnum að velja orð ársins í netkosningu á rúv.is. Í ár varð orðið Epalhommi fyrir valinu.

Frétt mbl.is: Epalhommi orð ársins 2017

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert