Styrkur svifryks fer hækkandi í Reykjavík

Svifryk á höfuðborgarsvæðinu. Þau sem eru viðkvæm í öndunarfærum ásamt …
Svifryk á höfuðborgarsvæðinu. Þau sem eru viðkvæm í öndunarfærum ásamt börnum ættu að forðast útivist í nágrenni við umferðagötur vegna svifryks. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Styrkur svifryks fer hækkandi í Reykjavík og má búast við að svo verði fram eftir degi. Þau sem eru viðkvæm fyrir ryki ættu að forðast göngur í nánd við umferðargötur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. 

Styrkur svifryks hefur farið hækkandi það sem af er degi samkvæmt mælingum í mælistöðvum við Grensásveg, Hringbraut og Eiríksgötu. Nú er hægur vindur og kalt, götur þurrar og litlar líkur á úrkomu fyrr en á laugardag. Þar sem búist er við svipuðum veðurfarsaðstæðum eru líkur á svifryksmengun við umferðargötur.

Viðkvæmir og börn forðist umferðargötur

Þau sem eru viðkvæm í öndunarfærum ásamt börnum ættu því að forðast útivist í nágrenni við umferðagötur. Sólarhrings heilsuverndarmörkin fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Klukkan 13 í dag var hálftímagildi svifryks við Grensásveg 98 míkrógrömm á rúmmetra. Í mælistöð við Hringbraut var hálftímagildið á sama tíma 142 míkrógrömm á rúmmetra og við Eiríksgötu 66 míkrógrömm á rúmmetra. 

Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna á vef Reykjavíkurborgar. Þar má einnig sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert