Ekki lengur „ferskasta land í heimi“

Umræðan um svifryk í borginni hefur verið mikil að undanförnu.
Umræðan um svifryk í borginni hefur verið mikil að undanförnu. mbl.is/RAX

Formaður Astma- og ofnæmisfélags Íslands segir ástandið vegna svifryks í Reykjavík, meðal annars af völdum flugelda, vera slæmt þessa dagana. Þörf sé á markvissum aðgerðum til að slíkt ástand skapist ekki aftur.

„Við getum ekki verið í mengunarvörnum og hugsað um náttúruna allt árið en látið svo dagana í kringum áramótin renna hjá eins og þeir skipti ekki máli,“ segir Fríða Rún Þórðardóttir, formaður Astma- og ofnæmisfélags Íslands, í svar við fyrirspurn mbl.is.

„Það verður áhugavert að sjá hvernig ráðherra umhverfismála ætlar að taka þetta mál áfram og það væri gaman að fá að hitta hann á góðum fundi. Við Íslendingar þurfum að viðurkenna, hversu erfitt sem það er, að við stríðum við mengun og við erum ekki lengur „ferskasta land í heimi“,“ bætir hún við.

Töluverð mengun fylgir áramótagleðinni.
Töluverð mengun fylgir áramótagleðinni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vill virkara upplýsingaflæði

Hvað mælingar á svifryki í Reykjavík varðar telur hún að þær þyrftu mögulega að vera öflugri og upplýsingaflæði til almennings virkara, þó svo að það hafi verið gott fyrir áramót. „Það má alveg hrósa þeim hjá Umhverfisstofnun fyrir þeirra framlag og ég ber mikið traust til þeirra og sér í lagi Þorsteins Jóhannssonar fyrir að meta alvarleikann og veita réttar upplýsingar um alvarleikann á því ástandi sem ríkti núna um áramótin.“

Fríða Rún Þórðardóttir, næringarfræðingur og formaður Astma- og ofnæmisfélags Íslands.
Fríða Rún Þórðardóttir, næringarfræðingur og formaður Astma- og ofnæmisfélags Íslands.

Vonast eftir læknisfræðilegri rannsókn 

Hún nefnir að sem hlaupari, hlaupaþjálfari og næringarfræðingur sem hvetji fólk til hreyfingar hafi hún áhyggjur af því hvort fólk sé að setja sig í hættu með útiveru á þeim dögum sem mengunin er hvað mest. Þar á hún við langtímaáhrif á lungu og öndunarveg. „Ég hef komið með hugmyndir að læknisfræðilegri rannsókn sem mætti vinna til að kanna þetta en ekki fundið slíkri rannsókn farveg ennþá. Auglýsi hér með eftir áhugasömum aðilum í slíkt verkefni með mér,“ segir hún.

Fríða Rún bætir þó við að hún spyrji sína hlaupara hvort þeir finni fyrir mengun og í flestum tilfellum finni þeir ekki fyrir neinu. Sjálf er hún með áreynsluastma og hefur mengunin því meiri áhrif á hana.

Hvetur Kastljós til að fjalla um málið

Umræðan um svifryksmengun að undanförnu, meðal annars af völdum flugelda, segir hún að hafi verið að mestu góð. Engar ábendingar hafi samt komið frá astmasjúklingum vegna mengunarinnar til Astma- og ofnæmisfélagsins. Hún hvetur Kastljós til að fjalla náið um vandamálið og fá sérfræðinga til að fara betur í saumana á því.

„Það er áhugavert að velta fyrir sér hvað þetta virkilega er sem við erum að tala um. Jú, við  vitum að mengunin og svifrykið eru örsmáar agnir sem smjúga því auðveldlega um. Hins vegar þá gerum við okkur örugglega ekki alveg nógu mikla grein fyrir alvarleikanum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert