Kappakstur á Rauðavatni á morgun

Rauðavatn er botnfrosið um þessar mundir eftir frost síðustu vikur.
Rauðavatn er botnfrosið um þessar mundir eftir frost síðustu vikur. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ekið verður á ísilögðu Rauðavatni á morgun. Að viðburðinum stendur Kvartmíluklúbburinn og geta allir félagsmenn með reynslu af kappakstri tekið þátt.

„Við erum með brautarakstur á svæðinu okkar á sumrin og þar er hópur sem hafði áhuga á að keyra líka yfir veturinn,“ segir Ingimundur Helgason, gjaldkeri Kvartmíluklúbbsins. Hann segir félagsmenn hafa unnið að því síðustu daga að fá leyfi fyrir akstri á ísnum og nú sé það svo gott sem frágengið. 

Þetta er í fyrsta sinn sem Kvartmíluklúbburinn boðar til ísaksturs. Mæting er að Rauðavatni klukkan 10 í fyrramálið en ráðgert að akstur hefjist klukkan 11. Ingimundur segist sjálfur ekki ætla að keyra; hann verði í skipulagningunni. Hann býst við um tíu til fimmtán ökumönnum. Tímamæli verður komið fyrir í ísnum en ekki verður um eiginlega keppni að ræða. „En það er alltaf smá keppni,“ segir Ingimundur og hlær.

Hann segir nauðsynlegt að búa sig vel til að keyra á ís. Þá séu nagladekk grundvallaratriði, auk þess sem sumir komi með sérbúin dekk með stærri nöglum. Aðspurður segir hann félagsmenn ekki hafa áhyggjur af því þó hlýna eigi á morgun. „Það er botnfrosið núna. Það hlýnar nú ekki það hratt,“ segir Ingimundur og bætir við að vel sé fylgst með veðurspánni og mælingar Veðurstofunnar um burðarþol íssins eftir þykkt hafðar til hliðsjónar.

Nánari upplýsingar um viðburðinn má nálgast á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert