Húsið brunnið til kaldra kola

Húsið í Stardal, sem varð eldi að bráð í morgun, er brunnið til kaldra kola og eldurinn að mestu slokknaður. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur fyrir vikið kallað mest af liði sínu af staðnum en upphaflega voru fimmtán slökkviliðsmenn sendir á vettvang, þrír dælubílar og tveir tankbílar. Auk þess var körfubíll á staðnum frá slökkviliðinu.

Frétt mbl.is: Alelda einbýlishús

Verið er að slökkva í glæðum og undirbúa það að afhenda lögreglunni vettvanginn samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu en hún mun sjá um rannsókn á upptökum eldsins. Ekkert er vitað um þau á þessari stundu. Enn er dælubíll og körfubíll á staðnum. Húsið, sem er einbýlishús, var mannlaust en ekki hefur verið búið þar undanfarin ár.

Húsið er í eigu móður Þórðar Magnússonar, forstjóra United Silicon, en hann var á staðnum þegar mbl.is náði af honum tali. Sagði hann að foreldrar hans hefðu flutt þaðan fyrir nokkrum árum en bróðursonur hans hefði hins vegar haft þar lögheimili. Húsið var mannlaust þegar eldurinn kom upp en það virðist fljótt hafa orðið alelda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert